Húsnæðismál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11608/2022)

 

Kvartað var yfir synjun Reykjavíkurborgar á umsókn um almennt félagslegt leiguhúsnæði.

 

Hvorki lá fyrir niðurstaða áfrýjunarnefndar velferðarráðs í málinu né eftir atvikum úrskurðarnefndar velferðarmála og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um erindið að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 17. mars sl. yfir ákvörðun Reykjavíkur­borgar 1. sama mánaðar um að synja umsókn yðar um almennt félagslegt leiguhúsnæði. Í niðurlagi ákvörðunarinnar er leiðbeint um að henni megi skjóta til áfrýjunarnefndar velferðarráðs.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af ákvæðinu leiðir m.a. að almennt fjallar umboðsmaður ekki um mál á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega leitt til lykta í stjórnsýslunni. Þar sem ekki liggur fyrir niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar og eftir atvikum úrskurðarnefndar velferðar­mála eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar að svo stöddu.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar.