Húsnæðismál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11642/2022)

Kvartað var yfir þjónustumiðstöðinni Miðgarði og að viðkomandi hefði ekki fengið úthlutað félagslegu húsnæði hjá Reykjavíkurborg.

Í kvörtuninni kom fram að sá dráttur sem orðið hefði á úthlutun húsnæðisins hefði verið kærður til úrskurðarnefndar velferðarmála. Erindið var því til meðferðar þar og þá ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 26. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar sem barst 3. apríl sl. og beinist að þjónustumiðstöðinni Miðgarði sem tilheyrir stjórnsýslu Reykjavíkur­borgar. Af kvörtuninni verður ráðið að hún lúti að því að þér hafið ekki fengið úthlutað félagslegu húsnæði hjá sveitarfélaginu en þér hafið verið án húsnæðis frá því á árinu 2019.

Jafnframt verður ráðið af kvörtuninni að þér hafið kært þann drátt sem orðið hefur á úthlutun húsnæðis til yðar til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í samtali starfsmanns umboðsmanns við úrskurðarnefnd velferðarmála kom fram að kæra hafi borist frá yður 29. mars. sl. og að hún sé nú til meðferðar hjá nefndinni.

Líkt og fram kom í bréfi til yðar 27. janúar sl. er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þar sem málið er nú til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að lokinni málsmeðferð nefndarinnar getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.