Húsnæðismál. Hlutverk kærunefndar húsamála. Leiðbeiningarskylda stjórnvalda. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 11653/2022)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði kærunefndar húsamála þar sem kröfum hans gegn sveitarfélaginu B var hafnað, en þær lutu annars vegar að því að gerðar yrðu úrbætur á geymslu félagslegrar íbúðar vegna ólyktar og hins vegar hlutfallslegri endurgreiðslu á leigu fyrir þann tíma sem A hefði ekki getað nýtt geymsluna. Úrskurðurinn byggðist einkum á því að engin gögn styddu þá annmarka sem A bar við. Athugun umboðsmanns beindist aðallega að því hvort nægilega hefði verið gætt leiðbeiningarskyldu og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar við meðferð málsins hjá nefndinni.

Umboðsmaður gerði grein fyrir stöðu kærunefndar húsamála að lögum sem og lagaákvæðum um leiðbeiningarskyldu og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Hann lagði til grundvallar að nefndinni hefði verið kunnugt um að A kynni að hafa í fórum sínum gagn sem stutt gæti kröfur hans eða gæti aflað þess frá lögreglu. Umboðsmaður taldi því að borið hefði að vekja athygli A á því að gögn til stuðnings kröfu hans skorti, gefa honum kost á að leggja slík gögn fram og leiðbeina honum um afleiðingar þess ef það yrði ekki gert. Nefndin hefði aftur á móti ekki gert það eða gert reka til að afla frekari upplýsinga að þessu leyti. Með vísan til þessa taldi umboðsmaður að málsmeðferð nefndarinnar hefði ekki verið í samræmi við lög og mæltist til þess að hún tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu. Þá benti hann nefndinni einnig á að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 19. september 2022.