Heilbrigðismál. Eftirlitshlutverk landlæknis. Sérstakt hæfi. Andmælaréttur. Álitsumleitan.

(Mál nr. 11447/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferð landlæknis við útgáfu álits og úrskurði heilbrigðisráðuneytisins þar sem málsmeðferð landlæknis var staðfest. Í álitinu var komist að þeirri niðurstöðu að A hefði vanrækt starfsskyldur sínar sem sérfræðilæknir með því að hafa ekki sjálfur skoðað og lagt mat á ástand sjúklings, sem hafði nýlega gengist undir skurðaðgerð, við komu hans á tiltekið sjúkrahús heldur treyst á mat lítt reynds unglæknis. Þá hefði hann ekki fylgt meðferð sjúklingsins eftir með endurteknu klínísku mati. Í kvörtuninni var byggt á því að landlæknir hefði vikið frá umsögn óháðs sérfræðings án viðhlítandi rökstuðnings, A hefði ekki fengið tækifæri til að kynna sér umsögn sérfræðingsins og tjá sig um hana sem og að tiltekinn starfsmaður landlæknis hefði verið vanhæfur til að koma að meðferð málsins. Athugun umboðsmanns beindist að þessum atriðum.

Eftir að hafa kynnt sér eðli og aðstæður málsins, atvik þess og gögn, taldi umboðsmaður sig ekki hafa fullnægjandi forsendur til þess að líta svo á að viðkomandi starfsmaður hefði verið vanhæfur til meðferðar málsins vegna óvildar. Þá taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til annars en að líta svo á að umsögn óháða sérfræðingsins hefði verið send á lögheimili A, þrátt fyrir ágreining þar um, enda lægi fyrir dagsett og undirritað bréf í þá veru sem stílað væri á A. Umboðsmaður leit því svo á að A hefði verið gefið færi á að koma sjónarmiðum sínum við umsögnina á framfæri. Að lokum taldi umboðsmaður ekki efni til að líta svo á að landlæknir hefði vikið frá umsögn óháða sérfræðingsins. Sú niðurstaða byggðist á því að sérfræðingurinn hefði ekki lagt mat sitt á það atriði sem landlæknir byggði niðurstöðu sína á um vanrækslu A.

Við meðferð málsins vakti athygli umboðsmanns það almenna verklag landlæknis að senda einungis viðkomandi heilbrigðisstofnun en ekki, eftir atvikum, þeim heilbrigðisstarfsmanni sem í hlut á gögn vegna kvörtunar. Í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að það hefði gert athugasemdir við verklag landlæknis að þessu leyti. Taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til að beina sérstökum athugasemdum til landlæknis vegna þessa verklags. Umboðsmaður vænti þess þó að ráðuneytið fylgdi eftir ábendingu sinni gagnvart landlækni.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 20. september 2022.