Landbúnaður. Búfé. Sveitarfélög. Stjórnsýslueftirlit. Stjórnarskrá. Friðhelgi eignarréttar.

(Mál nr. 11167/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir leiðbeiningum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í tilefni af kvörtun hans yfir stjórnsýslu sveitarfélags í tengslum við beiðni hans um smölun ágangsfjár á jörð hans.  Í þeim kom fram sú afstaða að ákvæði í lögum um búfjárhald gengju framar eldri ákvæðum laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Í því fælist að til þess að banna umgang og beit búfjár í heimalandi, þar sem svo háttar til að viðkomandi sveitarfélag hefur ekki skyldað umráðamenn búfjár til að hafa það í vörslu, bæri umráðamanni landsins að taka ákvörðun um að friða það í samræmi við nánari skilyrði laganna þar um.

Umboðsmaður taldi ljóst að reglur laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. væru byggðar á þeim grunnrökum að umráðamaður lands þyrfti ekki að heimila öðrum þau afnot af landinu sem fælust í umgangi og beit búfjár í annarra eigu. Jafnframt mæltu reglurnar fyrir um verndarrétt hans við ákveðnar aðstæður, þ.e. annars vegar rétt hans til að leita til handhafa opinbers valds, sveitarstjórnar og eftir atvikum lögreglustjóra, og hins vegar bótarétt vegna tjóns af völdum ágangsfjár. Hefði ætlunin verið að gera breytingu á þessari réttarstöðu umráðamanns lands með yngri lögum, s.s. með þeirri takmörkun á eignarrétti hans að hann yrði að þola ágang búfjár annarra á eign sína eða nyti ekki fyrrgreinds verndarréttar hefði orðið að gera kröfu um að það yrði skýrlega ráðið af orðalagi og efni þeirra lagaákvæða sem til álita hefðu komið. Var þá höfð í huga sú krafa um lagaáskilnað sem leiðir af stjórnskipulegri vernd eignarréttinda.

Umboðsmaður tók fram að það ákvæði laga um búfjárhald sem við ætti fjallaði samkvæmt orðum sínum um heimild umráðamanns lands til að friða ákveðið svæði innan þess, hvernig slíkri friðun yrði komið á og viðhaldið. Að virtum texta ákvæðisins og lögskýringagögnum taldi hann varhugavert að skýra ákvæðið á þá leið að vilji löggjafans hefði staðið til þess að kollvarpa aldagömlu réttarástandi og takmarka eignarrétt umráðamanns lands m.t.t. til ágangs búfjár. Hann gat því ekki fallist á að það væri tækur grundvöllur fyrir gagnályktun á þá leið að umráðamaður lands þyrfti að þola heimildarlausa beit búfjár annars manns í landi sínu og þá án þess að geta neytt úrræða samkvæmt lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl. þegar skilyrðum þeirra laga væri að öðru leyti fullnægt.

Niðurstaða umboðsmanns var að skýra yrði ákvæði laga um búfjárhald til samræmis við almennar reglur laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. viðvíkjandi úrræðum umráðamanns lands við óheimilli beit búfjár í landi hans svo og grunnreglur eignarréttar. Af því leiddi að umrædd lagagrein gæti ekki orðið annars efnis eða haft önnur réttaráhrif en þau sem texti hennar mælti fyrir um, þ.e. að umráðamanni lands væri heimil sérstök friðun og nyti þá þeirra heimilda sem kveðið væri á um í lögunum. Hefði umráðamaður lands hins vegar ekki nýtt sér heimild til friðunar giltu um réttarstöðu hans þær reglur sem að meginstefnu hefðu gilt hér á landi um þessi efni frá fornu fari auk þess sem hann kynni að njóta þess sérstaka verndarréttar sem verið hefði í íslenskum rétti frá gildistöku fyrstu heildarlaga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. árið 1969. Umboðsmaður tók aftur á móti enga afstöðu til þeirra atvika sem lýst var í erindi til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins eða réttarstöðu viðkomandi að öðru leyti.

Beindi umboðsmaður því til innviðaráðuneytisins, sem nú fer með sveitarstjórnarmál, að það tæki umræddar leiðbeiningar í heild sinni til endurskoðunar með hliðsjón af sjónarmiðum í álitinu og tæki jafnframt mið af þeim framvegis. Í ljósi réttaróvissu um ýmis atriði sem fjallað var um í málinu sendi hann matvælaráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga jafnframt afrit af álitinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 11. október 2022.