Opinberir starfsmenn. Ráðning í starf. Sérstakt hæfi. Setning staðgengils.

(Mál nr. 11643/2022)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun Fiskistofu um að ráða annan umsækjanda en hann í starf forritara. Laut kvörtunin að því að hæfasti umsækjandinn hefði ekki verið ráðinn og ekki hefði verið gætt að hæfisreglum stjórnsýsluréttar við meðferð málsins þar eð tengdasonur fiskistofustjóra hefði verið ráðinn. Athugun umboðsmanns beindist að hinu síðarnefnda.

Samkæmt gögnum málsins upplýsti fiskistofustjóri, áður en umsóknarfrestur rann út, að tengdasonur hans hefði sótt um starfið og hann væri vanhæfur til meðferðar þess. Þrír starfsmenn Fiskistofu önnuðust mat og samanburð vegna ráðningarinnar. Ekkert lá fyrir um að fiskistofustjóri hefði haft formlega eða efnislega aðkomu að þeirri ákvörðun að bjóða tengdasyni hans starfið, en samkvæmt skýringum Fiskistofu var ákvörðun um ráðningu í höndum mannauðsstjóra.

Umboðsmaður taldi að eftir að fyrir lá að tengdasonurinn væri meðal umsækjenda hefði fiskistofustjóra, með hliðsjón af skipulagi og verklagsreglum stofnunarinnar, borið að tilkynna um vanhæfi sitt til matvælaráðherra með það fyrir augum að ráðherra setti hæfan staðgengil til þess að fara með þau verkefni sem honum voru ætluð vegna ráðningarmálsins. Hefði það þá komið í hlut þess staðgengils að taka afstöðu til þess hvort aðrir starfsmenn en fiskistofustjóri væru vanhæfir til meðferðar málsins.

Í tengslum við umfjöllun um sérstakt hæfi næstu undirmanna fiskistofustjóra til meðferðar málsins benti umboðsmaður á að markmið reglna um sérstakt hæfi væri ekki einungis að koma í veg fyrir að ómálefnaleg sjónarmið hefðu áhrif á efni stjórnvaldsákvarðana í reynd heldur einnig stuðla að því að almenningur og þeir sem hlut ættu að máli gætu treyst því að stjórnvöld leystu úr málum á hlutlægan hátt. Þegar um væri að ræða næsta undirmann stjórnvaldshafa sem sjálfur væri vanhæfur til meðferðar máls mætti almennt gera ráð fyrir því að starfsmaður væri á vissan hátt háður yfirmanni sínum og væri hætt við að hann væri ekki hlutlaus og óhlutdrægur. Umboðsmaður tók fram að tengsl fiskistofustjóra við einn aðila ráðningarmálsins hefðu verið náin, að miða yrði við að hagsmunir umsækjanda af því að hljóta starf væru jafnan verulegir og að ákvörðun um ráðningu væri að nokkru háð mati stjórnvalds. Þá hefðu verklagsreglur gert ráð fyrir ákveðnum samskiptum mannauðsstjóra við fiskistofustjóra, m.a. að því er varðaði val á umsækjanda. Hvað sem leið raunverulegri ákvarðanatöku í málinu eða aðkomu fiskistofustjóra að því var það því álit umboðsmanns að draga hefði mátt óhlutdrægni næstu undirmanna fiskistofustjóra, þ. á m. mannauðsstjóra, í efa með réttu við  þessar aðstæður. Umboðsmaður taldi því að meðferð mannauðsstjóra á málinu hefði ekki verið í samræmi við vanhæfisreglur stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds var niðurstaða umboðsmanns að að málsmeðferð Fiskistofu við ráðningu forritara hefði ekki verið í samræmi við hæfisreglur stjórnsýslulaga. Beindi hann þeim tilmælum til Fiskistofu að hún gætti framvegis að þeim sjónarmiðum sem fram komu í álitinu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 18. október 2022.