Rafræn stjórnsýsla. Umboðsmaður aðila stjórnsýslumáls. Vandaðir stjórnsýsluhættir.

(Mál nr. F118/2022)

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið frumkvæðisathugun viðvíkjandi framkvæmd Vegagerðarinnar á „Loftbrú“ sem er yfirheiti fyrirkomulags greiðsluþátttöku íslenska ríkisins í flugfargjöldum íbúa sem eiga lögheimili á skilgreindum svæðum á landsbyggðinni og stofnunin hefur umsjón með. Tildrög athugunarinnar voru ábending sem laut að því að íbúa hefði í ákveðnu tilfelli einungis verið unnt að nýta þann styrk sem fælist í greiðsluþátttökunni með því að skrá sig inn á þjónustugáttina island.is með rafrænum skilríkjum sem viðkomandi hafði ekki yfir að ráða. Önnur úrræði til að sækja um styrkinn hefðu ekki staðið honum til boða. Einnig kom fram í ábendingunni að hlutaðeigandi hefði ekki átt þess kost að njóta aðstoðar aðstandanda eða annars umboðsmanns við umsókn um styrkinn í gegnum fyrrgreinda þjónustugátt. Athugun umboðsmanns beindist að því að kanna hvort verklag Vegagerðarinnar hefði samrýmst lögum, einkum reglum stjórnsýslulaga um rafræna meðferð stjórnsýslumála.

Umboðsmaður benti m.a. á að samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga væri ekki heimilt að einskorða meðferð stjórnsýslumála við rafræna meðferð. Stjórnvöldum sem tækju upp slíka stjórnsýsluhætti væri skylt að bjóða jafnframt upp á hefðbundna meðferð máls. Umboðsmaður benti einnig á að þrátt fyrir skyldu opinberra aðila til að taka upp rafræna meðferð stjórnsýslumála samkvæmt lögum um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda yrði sú ályktun ekki dregin af ákvæðum þeirra að með þeim hafi borgurunum af sinni hálfu verið gert skylt að eiga í rafrænum samskiptum við stjórnvald í þágu meðferðar máls. Loks benti umboðsmaður á að reglur stjórnsýsluréttarins um umboðsmann aðila máls stæðu óhaggaðar þótt ákveðið væri að nýta kosti rafrænnar miðlunar við meðferð stjórnsýslumáls enda leiddi ekki annað af lögum.

Það varð niðurstaða umboðsmanns að Vegagerðinni hefði ekki verið heimilt að haga verklagi í tengslum við Loftbrú á þann veg að einungis væri mögulegt að sækja um afsláttarkóða með rafrænum skilríkjum í gegnum þjónustugáttina island.is. Einnig taldi umboðsmaður ljóst að verklag stofnunarinnar hefði ekki samræmst óskráðum reglum stjórnsýsluréttar um heimild aðila stjórnsýslumáls til að láta umboðsmann koma fram fyrir sína hönd.

Loks taldi umboðsmaður þetta mál og önnur gefa sér tilefni til að vekja almenna athygli á því að tæknilegar lausnir stjórnvalda virtust oft í upphafi taka lítið tillit til aðstæðna allra þeirra sem þyrftu að eiga samskipti við stjórnsýsluna. Sú hætta gæti skapast að þeir sem standa höllum fæti gagnvart rafrænni miðlun nytu lakari þjónustu en ella eða jafnvel alls ekki þeirrar þjónustu sem þeir ættu þó rétt á samkvæmt lögum. Umboðsmaður benti einnig á að þegar sett væru upp kerfi fyrir rafræna meðferð mála gætu síðari breytingar verið erfiðleikum bundnar og kostnaðarsamar. Þá gætu mistök vegna galla í slíkum kerfum umsvifalaust haft áhrif á meðferð fjölda mála og þannig orðið dýrkeyptari en hefðbundin mannleg mistök. Ítrekaði umboðsmaður því mikilvægi þess að þeim sem koma að hönnun rafrænna kerfa stjórnsýslunnar sé í upphafi ljóst hvaða lagalegu og faglegu kröfur slík kerfi verða að uppfylla í stað þess að þeim sé e.t.v. hrint í framkvæmd með það fyrir augum að bæta megi úr annmörkum eftir því sem þeir koma síðar í ljós.

Í ljósi þess að fyrir lá að Vegagerðin hefði hafið vinnu við að gera mögulegt að úthluta afsláttarkóða til þeirra sem ekki geta auðkennt sig með stafrænum hætti taldi umboðsmaður ekki tilefni til að beina sértækum tilmælum þar að lútandi til stofnunarinnar. Hann tók þó fram að hann myndi áfram fylgjast með framvindu þessa máls og óskaði eftir því að embættið yrði upplýst um framgang þeirra úrbóta sem Vegagerðin ynni að. Að öðru leyti beindi umboðsmaður þeim tilmælum til Vegagerðarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 3. nóvember 2022.