Lyfjamál. Stjórnsýslukæra. Kæruaðild. Aðili máls.

(Mál nr. 11417/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði heilbrigðisráðuneytisins. Með úrskurðinum var kæru A vegna ákvörðunar Lyfjastofnunar um að synja umsókn læknis um ávísun undanþágulyfs til hans sem forvörn og/eða meðferð vegna Covid-19 vísað frá. Úrskurður ráðuneytisins byggðist á því að A ætti ekki kæruaðild þar sem hann hefði ekki sérstakra eða verulegra hagsmuna að gæta af málinu.

Umboðsmaður rakti að samkvæmt lyfjalögum væri dreifing lyfja hluti heilbrigðisþjónustu en undir það hugtak félli m.a. þjónusta sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði og fyrirbyggja sjúkdóma. Þar sem lyfinu var ávísað sérstaklega til A hefði ákvörðun Lyfjastofnunar í reynd lotið að því hvort A fengi aðgang að lyfi sem læknir hafði ákveðið að ávísa honum og þar með hvort honum yrði veitt sú heilbrigðisþjónusta sem í því fólst. Að þessu leyti tók umboðsmaður fram að hvorki skýringar ráðuneytisins til umboðsmanns né gögn málsins bæru með sér að mat læknisins á þörf A til að nota lyfið hefði komið til sérstakrar skoðunar.

Þar sem notendur heilbrigðisþjónustu eiga rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er unnt að veita og þeim eru víða í löggjöf tryggð ýmis réttindi og úrræði því tengdu taldi umboðsmaður að miða yrði við að ákvörðun um hvort tiltekin heilbrigðisþjónusta skyldi veitt eða ekki lyti að réttindum sem viðkomandi væru tryggð með lögum og þar með að verulegum hagsmunum hans. Hann taldi því að A hefði átt verulegra hagsmuna að gæta af ákvörðun Lyfjastofnunar um hvort læknirinn fengi heimild til að ávísa lyfinu og þar með hvort hann fengi þá heilbrigðisþjónustu sem í því fólst. Í því sambandi tók hann fram að mat ráðuneytisins á því hvort lyfið hefði tilætlaða virkni eða ekki heyrði undir efnislega úrlausn málsins og gæti ekki haggað þeirri niðurstöðu að A hefði átt bæði sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta af ákvörðun Lyfjastofnunar. Var það því niðurstaða umboðsmanns að A hafi notið heimildar til að kæra ákvörðun Lyfjastofnunar.

Umboðsmaður beindi því til ráðuneytisins að taka mál A til meðferðar að nýju bærist beiðni þess efnis frá honum. Jafnframt beindi umboðsmaður því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin voru í álitinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 15. desember 2022.