Lögreglu- og sakamál. Meðferð ákæruvalds. Niðurfelling saksóknar. Stjórnvaldsákvörðun. Upphaf kærufrests. Birting ákvörðunar. Kæruleiðbeiningar. Kæra berst að liðnum kærufresti. Rökstuðningur.

(Mál nr. 11738/2022)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir afgreiðslu ríkissaksóknara á kæru hennar sem laut að ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um að falla frá saksókn vegna líkamsárásar. Kæru A var vísað frá vegna þess að hún hefði borist að liðnum kærufresti. Kvörtunin laut einkum að því að ríkissaksóknari hefði ekki lagt mat á hvort skilyrði væru til að taka kæruna engu að síður til efnismeðferðar á grundvelli 28. gr. stjórnsýslulaga.

Kæra A til ríkissaksóknara var m.a. byggð á því að tilkynningu lögreglustjóra um að fallið hefði verið frá saksókn í málinu hefði ekki verið beint til A eða foreldra hennar heldur hefði móðir hennar fengið afrit af tilkynningu þar að lútandi sem beint hefði verið til sakbornings. Kæruleiðbeiningar í tilkynningunni hefðu samkvæmt framsetningu þeirra einungis beinst að honum. Því hefði skilyrðum stjórnsýslulaga til að taka kvörtun til meðferðar að liðnum kærufresti verið fullnægt þar sem afsakanlegt væri að kæran hefði ekki borist fyrr.

Þótt telja yrði að það hefði verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að tilkynna A, sem brotaþola, um ákvörðunina með sérstakri einstaklingsmiðaðri tilkynningu leit umboðsmaður svo á að ekki hefði farið á milli mála hvert efni ákvörðunar lögreglustjóra hefði verið. Hann taldi því ekki efni til að líta svo á að birtingarháttur hennar hefði í sjálfu sér verið í ósamræmi við lög. Því yrði að leggja til grundvallar að ákvörðunin hefði orðið bindandi gagnvart A og eins mánaðar kærufrestur byrjað að líða þegar afrit af ákvörðuninni var komið til forsjáraðila hennar. Ótvírætt var að þegar kæra A barst ríkissaksóknara var meira en einn mánuður liðinn frá því að henni var tilkynnt um ákvörðunina. Umboðsmaður gat hins vegar ekki fallist á að viðtakandi tilkynningarinnar hefði mátt ráða af henni að A nyti sambærilegrar heimildar og sakborningur til að kæra ákvörðun lögreglustjóra, svo sem með tilliti til nánari skilyrða fyrir kæru og kærufrests.

Jafnframt taldi umboðsmaður að af afstöðu ríkissaksóknara til kæru A yrði ekki ráðið að hann hefði lagt á það efnislegt mat hvort fullnægt væri skilyrðum stjórnsýslulaga um að afsakanlegt væri að kæran hefði ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæltu með því að hún yrði tekin til meðferðar, einkum í ljósi atvika við tilkynningu ákvörðunar lögreglustjóra. Hann gat því ekki fallist á að tekin hefði verið fullnægjandi afstaða til þess atriðis. Í því sambandi áréttaði hann að ákvæði stjórnsýslulaga giltu um málsmeðferð og ákvarðanatöku handhafa ákæruvalds að því marki sem ekki leiddi annað af lögum um meðferð sakamála. Því yrði ekki á það fallist að útilokað hefði verið að taka kæruna til efnismeðferðar eftir að kærufrestur var útrunninn enda þótt væntingar sakbornings kynnu hugsanlega að vera meðal þeirra atriða sem ríkissaksóknari teldi rétt að líta til við nánara mat sitt á skilyrðum stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður beindi því til ríkissaksóknara að taka kærumál A til nýrrar meðferðar kæmi fram ósk þess efnis frá henni og tæki þá mið af þeim sjónarmiðum sem sett væru fram í álitinu. Að öðru leyti beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ríkissaksóknara að gæta framvegis að þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti dags. 21. desember 2022.