Opinberir starfsmenn. Siðareglur. Siðanefnd. Andmælaréttur. Rannsóknarreglan. Rökstuðningur.

(Mál nr. 11458/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferð siðanefndar Háskóla Íslands í máli sem laut að vinnubrögðum háskólastofnunar og háttsemi tiltekinna starfsmanna stofnunarinnar og deildar háskólans. Í kvörtuninni var á því byggt að málsmeðferð nefndarinnar hefði í ýmsum atriðum brotið gegn stjórnsýslulögum og starfsreglum nefndarinnar. Athugun umboðsmanns var einskorðuð við hvort nægilega hefði verið gætt að andmælarétti A við meðferð málsins hjá siðanefndinni svo og hvort hún hefði fullnægt skyldu sinni til rannsóknar og rökstuðnings.

Umboðsmaður gerði grein fyrir lagaumhverfi og hlutverki siðanefndar Háskóla Íslands sem og eftirliti umboðsmanns með nefndinni. Hann lagði til grundvallar að stjórnsýslulög ættu ekki við um meðferð málsins hjá nefndinni og að sá sem beindi erindi til siðanefndar háskóla ætti ekki almennan rétt til andmæla samkvæmt óskráðum reglum stjórnsýsluréttar sem svari til efnisákvæðis andmælareglu stjórnsýslulaga. Starfsreglur siðanefndar Háskóla Íslands gerðu á hinn bóginn ráð fyrir því að aðili sem beindi kvörtun að nefndinni fengi tilkynningu um að nefndin hefði ákveðið að fjalla efnislega um mál og frest til þess að lýsa sjónarmiðum sínum. Meta þyrfti í hvert og eitt sinn hvort við meðferð máls fyrir nefndinni væru atvik með þeim hætti að rétt væri að veita slíkum aðila kost á andmælum umfram það sem leiddi af starfsreglum nefndarinnar. Slíkt gæti fyrst og fremst þjónað þeim tilgangi að upplýsa mál nægilega til samræmis við nánar tiltekinn lið starfsreglna nefndarinnar svo og óskráða rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Með hliðsjón af athugasemdum um að nefndin hefði ekki tekið rökstudda afstöðu til allra þátta erindis A benti umboðsmaður einnig á að ekki hvíldi fortakslaus skylda á stjórnvöldum að taka sérhverja málsástæðu sem aðili hefur fært fram til rökstuddrar úrlausnar heldur væri heimilt að vissu marki að líta til þess hvort þær gætu haft þýðingu fyrir úrlausn málsins.

Eftir að hafa kynnt sér gögn málsins taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við það efnislega mat nefndarinnar að málið hefði verið nægjanlega upplýst áður en hún komst að niðurstöðu sinni og að ekki hefði verið sérstakt tilefni til að gefa A kost á að tjá sig um þau viðbótargögn sem nefndin hafði aflað við meðferð málsins. Umboðsmaður taldi auk þess ekki tilefni til að gera athugasemdir við rökstuðning nefndarinnar að framangreindu leyti. Umboðsmaður taldi því ekki forsendur til að gera sérstakar athugasemdir við málsmeðferð siðanefndar Háskóla Íslands í umræddu máli en ritaði rektor skólans þó bréf þar sem fram komu ábendingar um að starfsreglur nefndarinnar væru að ýmsu leyti óskýrar með tilliti til hlutverks nefndarinnar að því er varðar stöðu þeirra sem bera upp erindi við hana.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 15. desember 2022.