Kvartað var yfir stöðubrotsgjaldi sem Bílastæðasjóður Reykjavíkur lagði á fyrir að hafa lagt bifreið í öfuga átt við akstursstefnu.
Umboðsmaður rakti og skýrði samspil greina í umferðarlögunum. Út frá því og ljósmynd af vettvangi taldi umboðsmaður ekki efni til að gera athugasemd við ákvörðun Bílastæðasjóðs.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 1. desember 2022.
Vísað er til kvörtunar yðar 14. október sl. yfir stöðubrotsgjaldi sem Bílastæðasjóður Reykjavíkur lagði á yður 3. september sl. fyrir að hafa lagt tilgreindri bifreið í öfuga átt við akstursstefnu í andstöðu við fyrirmæli 2. mgr. 28. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Í kvörtun yðar byggið þér einkum á því að þótt bifreiðinni hafi verið lagt í öfuga átt við akstursstefnu hafi henni verið lagt í bifreiðastæði í eigu Reykjavíkurborgar, sem gjald er tekið fyrir afnot af, og þar með gildi ofangreind regla umferðarlaga ekki. Þessu til viðbótar hafi reglan ekki verið gefin skýrlega til kynna. Þá gerið þér að lokum athugasemd við að í kröfu er birtist yður í netbanka vegna brotsins hafi það verið tilgreint á ensku líkt og um vanrækslu á stöðvunarskyldu væri að ræða, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 7. gr. og 2. mgr. 26. gr. umferðarlaga.
Í tilefni af kvörtun yðar var umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar ritað bréf þar sem óskað var eftir gögnum málsins og tilteknum upplýsingum. Svar Reykjavíkurborgar barst 3. nóvember sl.
Í 1. málslið 2. mgr. 28. gr. umferðarlaga er mælt fyrir um að á vegi megi einungis stöðva ökutæki eða leggja því hægra megin. Er það í samræmi við meginreglu 1. mgr. 18. gr. laganna þess efnis að við akstur á vegum gildi hægri umferð. Í 2. og 4. málslið 2. mgr. 28. gr. laganna er gert ráð fyrir undantekningum frá þessari reglu sem hér eiga þó ekki við. Eru ákvæði umferðarlaga að þessu leyti óbreytt frá áður gildandi umferðarlögum nr. 50/1987 og varð því ekki breyting að þessu leyti með gildistöku laga nr. 77/2019. Regla þessi í umferðarlögum hefur því legið fyrir um langt skeið.
Með því að skýra ákvæði fyrrgreinds 1. málsliðar 2. mgr. 28. gr. umferðarlaga til samræmis við 40. tölulið 1. mgr. 3. gr. sömu laga verður að skilja þá reglu, sem felst í 1. málslið 2. mgr. 28. gr., á þá leið að hún eigi einnig við um bifreiðastæði við akbraut enda tekur hugtakið vegur samkvæmt fyrrgreindum 40. tölulið ekki aðeins til akbrautar heldur einnig til bifreiðastæða. Að því virtu og eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og ljósmyndir af vettvangi tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við téða ákvörðun.
Vegna fyrrgreindrar athugasemdar yðar við tilgreiningu brotsins í netbanka yðar tek ég fram að í svari Reykjavíkurborgar kom fram að þessi ranga tilgreining eigi sér uppruna í rangri þýðingu viðskiptabanka yðar á tilvísun, sem fylgir greiðslukröfunni þegar hún er send frá Reykjavíkurborg. Samskipti Reykjavíkurborgar við bankann, sem bárust frá Reykjavíkurborg, bera með sér að Reykjavíkurborg hafi gengið á eftir því að að umrædd þýðing verði leiðrétt. Af þessum sökum er ekki tilefni til að fjalla frekar um þennan þátt kvörtunar yðar.
Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.