Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11901/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins á erindi. 

Taldi umboðsmaður að ekki hefði enn orðið slíkur dráttur á málsmeðferðinni að efni væru til nánari skoðunar hans að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. nóvember 2022.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 27. október sl., f.h. A, yfir töfum á afgreiðslu félags- og vinnumarkaðs­ráðuneytisins á erindi yðar til ráðuneytisins.

Samkvæmt þeim gögnum er þér létuð fylgja kvörtun yðar munu samskipti við ráðuneytið hafa byrjað 20. apríl sl. og verið nokkuð regluleg frá þeim tíma, en með erindinu fóruð þér þess á leit við ráðuneytið að það kannaði meðferð er umbjóðandi yðar sætti er hann bjó að X, þ.á m. varðandi málsmeðferð vegna ætlaðs kynferðisbrots, og það sinnti eftirlitshlutverki sínu vegna málefna fatlaðs fólks. Þá verður einnig af kvörtun yðar ráðið að þér viljið koma á framfæri almennum athugasemdum um málsmeðferð félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins vegna erinda sem réttindagæslumenn fatlaðs fólks beina til þess.

Fyrir liggur að 25. október sl. staðfesti félags- og vinnumarkaðsráðuneytið með tölvubréfi til yðar að framangreint erindi væri til skoðunar í ráðuneytinu. Í sama tölvubréfi voruð þér upplýstar um að viðbúið væri að frekari upplýsingar lægju fyrir um miðjan nóvembermánuð. Ber kvörtun yðar með sér að athugasemdir séu gerðar við þennan áætlaða afgreiðslutíma. Af þessu tilefni tek ég fram að ég tel að enn hafi ekki orðið slíkur dráttur á málsmeðferðinni að efni séu til nánari skoðunar hjá umboðsmanni að svo stöddu. Hafi áform ráðuneytisins ekki staðist og verði frekari tafir á meðferð erindisins getið þér leitað til embættisins á nýjan leik.

Þá beinist kvörtun yðar og almennt að viðmóti starfsmanna félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins gagnvart erindum réttindagæslumanna fatlaðs fólks, fyrir hönd skjólstæðinga sinna. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu stjórnvalds kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að almennt verður ekki kvartað til umboðsmanns nema kvörtunin snerti tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds, sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds. Ekki verður séð að athugasemdir yðar beinist að tiltekinni athöfn eða ákvörðun þess. Eru því ekki skilyrði að lögum til að ég fjalli um kvörtun yðar að þessu leyti.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.