Almannatryggingar.

(Mál nr. 11937/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður rétt til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði.  

Í kvörtuninni kom fram að ákvörðunin hefði verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála en viðkomandi skildi ekki niðurstöðuna vegna takmarkaðrar íslenskukunnáttu. Í úrskurðinum kom fram að nefndin gæti ekki fallist á það mat Vinnumálastofnunar að viðkomandi hefði borið ábyrgð á uppsögn. Felldi hún því ákvörðun stofnunarinnar úr gildi. Þar sem fallist hafði verið á sjónarmið viðkomandi taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 1. desember 2022.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 28. nóvember sl. yfir þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar 27. júlí sl. að fella niður rétt yðar til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði.

Í kvörtuninni kemur m.a. fram að þér hafið kært téða ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála og hún hafi úrskurðað í málinu, en þér skiljið ekki niðurstöðuna, með vísan til takmarkaðrar íslenskukunnáttu. Af því tilefni ritaði starfsmaður skrifstofu umboðsmanns yður tölvubréf 30. nóvember sl. þar sem þess var óskað að þér afhentuð umboðsmanni afrit af úrskurðinum. Með tölvubréfi sama dag urðuð þér við þeirri beiðni.

Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 17. nóvember sl. greinir að úrskurðarnefnd geti ekki fallist á það mat Vinnumálastofnunar að þér hafið sjálfar borið ábyrgð á umræddri uppsögn yðar. Sé ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt yðar til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði því felld úr gildi.

Í ljósi þess að úrskurðarnefndin hefur afgreitt kæru yðar með úrskurði þar sem fallist er á sjónarmið yðar tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar og lýk ég því meðferð minni á málinu, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmanns Alþingis.