Stjórnsýsluviðurlög og þvingunarúrræði. Lagaheimild. Rannsóknarreglan. Heimagisting.

(Mál nr. 11394/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að leggja stjórnvaldssekt á A að fjárhæð 750.000 kr. fyrir að reka heimagistingu án skráningar. Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvort fullnægjandi lagaheimild hefði verið til staðar til þess að leggja téða stjórnvaldssekt á A.

Umboðsmaður benti á að sá einn uppfyllti skilyrði að lögum til að bjóða upp á heimagistingu sem ætti annaðhvort lögheimili á viðkomandi eign eða væri eigandi hennar og hefði hana til persónulegra nota. Umboðsmaður taldi jafnframt að skráningarskylda vegna heimagistingar hvíldi á þeim sem uppfyllti skilyrði laganna til þess að bjóða upp á slíka gistingu enda bæri viðkomandi að tilkynna sýslumanni í viðkomandi umdæmi um að hann hygðist leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign í sinni eigu. Umboðsmaður taldi óumdeilt að A hefði hvorki verið þinglýstur eigandi umræddrar fasteignar né átt skráð lögheimili að X þegar atvik málsins áttu sér stað. Ekkert hefði því komið fram í málinu sem stutt gæti að skráningarskylda hefði hvílt á A. Umboðsmaður gat jafnframt ekki fallist á að ákvæði laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald fæli í sér sjálfstætt bann við því að reka heimagistingu óháð eignarhaldi eða skráðu lögheimili þess sem í hlut ætti.

Með vísan til þessa taldi umboðsmaður að heimild hefði skort að lögum til þess að leggja stjórnvaldssekt á A vegna óskráðrar heimagistingar á fasteign að X. Það varð því niðurstaða umboðsmanns að úrskurður ráðuneytisins í máli A hefði ekki verið í samræmi við lög. Umboðsmaður taldi jafnframt að við meðferð máls A hjá ráðuneytinu hefði á það skort að mál hennar hefði verið rannsakað til hlítar með tilliti til aðkomu hennar að umræddri heimagistingu og að tekin væri rökstudd afstaða til þess hvort sú lagaheimild, sem byggt var á, heimilaði álagningu stjórnvaldssektar.

Umboðsmaður mæltist til þess að menningar- og viðskiptaráðuneytið, sem hafði tekið við ferðamálum, tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu. Þá beindi hann því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 8. febrúar 2023.