A ehf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir afgreiðslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, nú menningar- og viðskiptaráðuneytis, á erindi félagsins viðvíkjandi gjaldfrjálsri uppflettingu í fyrirtækjaskrá. Í svörum ráðuneytisins til A ehf. kom fram sú afstaða að gjaldfrjáls uppfletting í fyrirtækjaskrá einskorðaðist við svonefndar grunnupplýsingar en tæki ekki til upplýsinga sem skráðar væru á grundvelli annarrar löggjafar, svo sem samkvæmt lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. Í ljósi þess að í lögum um fyrirtækjaskrá er mælt fyrir um að engin gjaldtaka skuli vera fyrir rafræna uppflettingu í fyrirtækjaskrá og allar upplýsingar skuli birtast í rafrænni uppflettingu tók umboðsmaður til athugunar hvort þessi afstaða væri í samræmi við lög.
Umboðsmaður taldi að þótt ákveðinn greinarmunur væri á skráningu upplýsinga í fyrirtækjaskrá eftir því hvort um væri að ræða svokallaðar grunnupplýsingar eða upplýsingar sem skráðar eru samkvæmt annarri löggjöf eða á grundvelli matskenndra sjónarmiða yrði að skilja orðalagið „allar upplýsingar“ í lögum um fyrirtækjaskrá svo að um væri að ræða hvers kyns upplýsingar sem skráðar væru í hana. Af tiltækum lögskýringargögnum dró umboðsmaður jafnframt þá ályktun að þegar lögunum var breytt í þessa veru hefði vilji löggjafans staðið til þess að framvegis yrði engin gjaldtaka fyrir rafræna uppflettingu upplýsinga í skránni. Engar vísbendingar væru um það að fyrirvari hefði verið gerður um áframhaldandi gjaldtöku fyrir slíka uppflettingu. Enn fremur taldi umboðsmaður ekki fært að fallast á það með ráðuneytinu að ákvæði laga um hlutafélög, laga um einkahlutafélög eða annarra laga leiddu til annarrar túlkunar og tók m.a. fram í því sambandi að gjaldtökuheimild í lögum fyrir aðgang að upplýsingum jafngilti því ekki að gjald skyldi taka fyrir aðganginn. Í ljósi þeirrar afdráttarlausu yngri sérreglu sem mælti fyrir um gjaldfrjálsa uppflettingu í fyrirtækjaskrá taldi umboðsmaður að líta yrði svo á að heimild ráðherra til að móta reglur um gjaldtöku væri takmörkuð að því er lyti að rafrænni uppflettingu. Þá tók umboðsmaður fram að sjónarmið um kostnað hins opinbera vegna taps af sértekjum ríkisskattstjóra gæti ekki haft þýðingu fyrir skýringu umrædds lagaákvæðis enda yrði ekki ráðið að við umfjöllun um hann á Alþingi hefði nokkur fyrirvari hafi verið gerður við málið vegna hans. Loks féllst umboðsmaður ekki á það með ráðuneytinu að sjónarmið um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga gætu haft þýðingu fyrir athugun hans á málinu þar sem um væri að ræða upplýsingar sem almennt væri talið heimilt að afhenda gegn gjaldi. Gjaldtaka fyrir aðgang að upplýsingum gæti ekki ein og sér ráðið úrslitum um það hvort hann samræmdist reglum um það efni.
Umboðsmaður mæltist til þess að menningar- og viðskiptaráðuneytið tæki reglugerð um gjaldtöku fyrirtækjaskrár, hlutafélagaskrár og samvinnufélagaskrár, til endurskoðunar með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu og hefði þau framvegis í huga.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 19. apríl 2023.