Opinberir starfsmenn. Sveitarfélög. Ráðningar í opinber störf. Álitsumleitan. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 11998/2023)

A  leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun sveitarstjórnar X um ráðningu B í starf aðstoðarskólastjóra Y-skóla. A var annar tveggja umsækjenda og laut kvörtunin að því að ekki hefði farið fram fullnægjandi samanburður á hæfni þeirra. Að fengnum skýringum sveitarfélagsins ákvað umboðsmaður að afmarka athugun sína við tillögu skólastjóra Y-skóla um ráðninguna og hvort sveitarstjórnin hefði, í ljósi þess hvernig hún var sett fram, tryggt að fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir um starfshæfni beggja umsækjenda áður en hún tók ákvörðun um ráðninguna.

Við meðferð málsins var upplýst að ákvörðun sveitarstjórnar um ráðninguna hefði byggst á skriflegri tillögu skólastjóra og munnlegri umsögn hans ásamt mati utanaðkomandi ráðgjafarfyrirtækis sem unnið var á grundvelli upplýsinga sem komu fram í umsóknum. Umboðsmaður benti á að þar sem sveitarstjórnin hefði, í samræmi við reglur sveitarfélagins, leitað eftir tillögu skólastjóra hefði henni einnig borið að kanna hvort sú tillaga uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru til forms og efnis slíkra umsagna áður en hún tók ákvörðun sína. Þar sem enginn skriflegur rökstuðningur fylgdi tillögu skólastjóra þegar málið var afgreitt á fundi sveitarstjórnar var hún haldin annmarka.

Umboðsmaður tók fram að þar sem mat ráðgjafarfyrirtækisins á umsækjendum byggðist á samanburði sem tók aðeins til hluta þeirra hæfnikrafna sem tilgreindar voru í auglýsingu hefði það mat, eitt og sér, ekki falið í sér viðhlítandi heildstæðan samanburð þeirra. Þá hefði fræðslunefnd ekki komist að niðurstöðu í málinu og því ekki sent umsögn til sveitarstjórnar eins og henni bar. Enn fremur  hefði sveitarstjórnin ekki getað lagt tillögu skólastjóra til grundvallar ákvörðun sinni án þess að bætt hefði verið úr skorti á rökstuðningi. Að lokum varð ekkert ráðið af skriflegri umsögn, sem skólastjóri veitti vegna beiðni A um rökstuðning, um nánari samanburð hans á umsækjendunum að öðru leyti en því að hann hefði talið B hæfari. Ekki lá fyrir að sveitarstjórnin hefði leitast við að bæta úr þeim annmörkum sem voru á meðferð málsins af hálfu skólastjóra eða, ef því var að skipta, tryggja með öðrum hætti að fyrir lægju fullnægjandi upplýsingar um hæfni beggja umsækjenda. Án tillits til þess hvort skólastjóra bar í umsögn sinni að gera heildstæðan samanburð á umsækjendum til stuðnings tillögu sinni taldi umboðsmaður gögn málsins því ekki bera með sér að við ákvörðun sveitarstjórnar um ráðninguna hefðu legið fyrir fullnægjandi upplýsingar að þessu leyti.

Niðurstaða umboðsmanns var að við meðferð ráðningarmálsins hefði ekki verið fullnægt þeim reglum sveitarfélagsins sem mæltu fyrir um að við ráðningu í starfið skyldi afla umsagnar fræðslunefndar og tillögu skólastjóra eins og þær bæri að skýra með hliðsjón af sjónarmiðum um lögbundna álitsumleitan. Það hefði ekki komið fram að sveitarstjórnin hefði bætt úr þeim annmörkum eða sjálf aflað frekari upplýsinga um starfshæfni beggja umsækjenda. Við meðferð málsins í heild og lokaákvörðun þess hefði því skort á að fram hefði farið heildstæður samanburður á hæfni umsækjenda þannig að fullnægt væri kröfum rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Þrátt fyrir þessa annmarka taldi umboðsmaður ólíklegt að þeir leiddu til ógildingar á ráðningunni, einkum vegna hagsmuna þess sem var ráðinn.

Beindi umboðsmaður því til X að sveitarfélagið leitaði leiða til að rétta hlut A en að öðru leyti yrði það að vera verkefni dómstóla að meta réttaráhrif annmarkanna ef A kysi að fara með málið þá leið. Jafnframt beindi hann þeim tilmælum til sveitarfélagsins að það hefði framvegis í huga þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 15. maí 2023.