Almannavarnir. Ferðafrelsi. Stjórnarskrá. Lagaheimild. Vandaðir stjórnsýsluhættir.

(Mál nr. F117/2022)

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið frumkvæðisathugun viðvíkjandi banni lögreglustjórans á Suðurnesjum við för barna yngri en 12 ára að gosstöðvunum í Meradölum í ágúst 2022. Tildrög athugunarinnar voru fréttaflutningur í ágúst 2022 um bannið og viðtal við lögreglustjórann sem birtist í fjölmiðlum. Í viðtalinu kom m.a. fram að ákvörðuninni yrði framfylgt af lögreglu með beitingu sekta á grundvelli lögreglulaga. Í svörum lögreglustjórans í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns kom jafnframt fram að fyrirmælum hans hefði ekki verið markaður sérstakur gildistími. Málið varð umboðsmanni tilefni til að fjalla um þau sjónarmið sem hann taldi að líta yrði til við beitingu þeirra valdheimilda sem fælust í viðkomandi ákvæði laga um almannavarnir við þær aðstæður sem uppi voru.

Umboðsmaður gerði grein fyrir almennum reglum um ferðafrelsi og heimild laga um almannavarnir til takmörkunar á því. Hann lagði til grundvallar að með ákvæðum þeirra væru lögreglustjóra fengnar víðtækar heimildir til að takmarka ferðafrelsi borgaranna frá því að hættustigi eða neyðarstigi almannavarna væri lýst yfir þar til því hefði verið aflýst. Þeim yrði þó að beita af varfærni og ekki ganga lengra en þörf væri hverju sinni til að afstýra hættu. Ekki væri hægt að útiloka að brot gegn fyrirmælum lögreglustjóra samkvæmt lögunum eða nánari fyrirmælum lögreglumanna á þeim grunni gæti varðað refsingu sem mælt væri fyrir um í lögreglulögum.

Umboðsmaður taldi að því ákvæði laga um almannavarnir, sem fjallar um heimildir lögreglustjóra til að gefa almenn fyrirmæli á hættustundu, væri ætlað að vera heimild til að bregðast fumlaust við hættuástandi sem samkvæmt lögunum og eðli málsins væri tímabundið. Hann tók einnig fram að ráðstafanir stjórnvalda, sem ætlað væri að bregðast við yfirvofandi hættu, gætu að jafnaði ekki verið til ótiltekins tíma. Það varð því niðurstaða hans að ótímabundin fyrirmæli lögreglustjóra á þá leið að banna för barna undir 12 ára aldri að gosstöðvunum í Meradölum hefðu, í ljósi þess tíma sem leið frá því að tilkynnt var um þau opinberlega þar til þau voru látin niður falla, ekki samrýmst þeim sjónarmiðum sem ættu við um heimild hans á grundvelli laga um almannavarnir. Í því sambandi benti hann á að ekki varð séð að tekið hefði verið til skoðunar hvort aðrar lagaheimildir gætu helgað slíkt bann til lengri tíma.

Að endingu tók umboðsmaður fram að það hefði verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að leitast við að kynna umrædd fyrirmæli opinberlega með fréttatilkynningum og birtingu upplýsinga á rafrænum miðlum. Hins vegar benti hann á að það myndi einnig teljast til vandaðra stjórnsýsluhátta að leitast við að kynna fyrir almenningi lok banns með jafn ítarlegum hætti og gert hefði verið við upphaflega ákvörðun, svo sem með sambærilegum tilkynningum til fjölmiðla, en ekki lá fyrir hvort það hefði verið gert. Umboðsmaður mæltist til þess að þau sjónarmið sem fram hefðu komið í álitinu yrðu framvegis höfð í huga.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 23. maí 2023.