Menntamál. Háskólar. Stjórnsýslukæra. Hæfi. Skráning og varðveisla gagna.

(Mál nr. 11793/2022)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema. Í úrskurðinum var m.a. ekki fallist á sjónarmið A um vanhæfi prófdómara sem skipaður hafði verið til að endurmeta miðbikspróf sem A þreytti við X-deild Háskóla Íslands. Þá var það afstaða nefndarinnar að það félli, að svo stöddu, utan valdsviðs hennar að fjalla um hæfi tveggja starfsmanna háskólans sem komið höfðu að meðferð á máli A, m.a. með því að tilnefna og skipa prófdómarann, þar sem það væri enn til meðferðar hjá háskólanum.

Athugun umboðsmanns var afmörkuð við það hvort áfrýjunarnefndinni hafi borið að fjalla efnislega um hæfi umræddra starfsmanna háskólans til meðferðar málsins og þar með hvort úrskurður nefndarinnar hafi verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður benti á að ákvarðanir um hvort starfsmanni bæri að víkja sæti vegna vanhæfis væru þáttur í málsmeðferð stjórnsýslumáls og því almennt ekki kæranlegar fyrr en mál hefði verið leitt til lykta. Í úrskurði sínum hefði nefndin tekið afstöðu til sjónarmiða A um hæfi prófdómarans og komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri uppi réttmætur vafi um óhlutdrægni hans. Í ljósi þess að nefndin hefði tekið efnislega afstöðu til kröfu A um að skipaður yrði nýr prófdómari í málinu yrði að leggja til grundvallar að nefndin hefði litið svo á að þeim tiltekna þætti málsins væri lokið og nefndin þar af leiðandi bær til að taka það atriði þegar í stað sjálfstætt til skoðunar og úrskurða um það.

Umboðsmaður taldi því að í framhaldi af niðurstöðu sinni um hæfi prófdómarans hefði nefndinni borið að taka afstöðu til þess hvort sú málsmeðferð sem leiddi til tilnefningar og skipunar hans hefði verið í samræmi við lög. Afstaða nefndarinnar á þá leið að það félli að svo stöddu ekki undir valdsvið hennar að taka afstöðu til hæfis þeirra starfsmanna sem komið hefðu að tilnefningu og skipun prófdómara í máli A hefði því ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður benti jafnframt á að nefndin hefði ekki haft öll gögn málsins undir höndum þegar umboðsmaður óskaði eftir þeim, að því er virðist án þess að vera það ljóst, auk þess sem sérstök fundargerð hefði ekki verið haldin vegna fundar með málsaðilum undir meðferð málsins. Umboðsmaður taldi því að verulega hefði skort á að meðferð málsins hefði verið í samræmi við kröfur upplýsingalaga um varðveislu gagna og skráningu upplýsinga sem og reglur sem giltu um störf nefndarinnar. Þá taldi hann að notkun fyrrverandi nefndarformanns á netfangi lögmannsstofu í samskiptum fyrir hönd nefndarinnar gæfi tilefni til spurninga um hvort gögn málsins hefðu verið nægilega aðgreind og varðveitt með tilliti til trúnaðar- og þagnarskyldureglna.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að hún tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá henni, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Jafnframt mæltist hann til þess að framvegis yrði tekið mið af sjónarmiðum og ábendingum sem komið hefðu fram.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 22. maí 2023.