Almannavarnir.

(Mál nr. F110/2022)

Umboðsmaður hóf athugun á breytingum sem leiddu af reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar þar sem almennt viðmið var rýmkað úr tíu í 50 manns.

Í ljósi skýringa ráðuneytisins, þess að reglugerðin var fallin úr gildi og að öllum takmörkunum hafði verið að fullu aflétt taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar. Hann taldi engu að síður rétt að árétta mikilvægi þess að ráðherra vegi og meti hverju sinni þá almannahagsmuni sem til standi að vernda, svo sem líf og heilsu borgaranna, með tilliti til þeirra hagsmuna eða réttinda sem skerðing bitnar á og þá einkum þeirra sem njóta verndar stjórnarskrárinnar. Hafa þurfi í huga að þegar um ræði heimildir í lögum sem miðist við tímabundnar aðstæður, beri stjórnvaldi að leggja reglubundið mat á hvort skilyrðum á hverjum tíma sé fullnægt til að viðhalda áfram þeim skerðingum sem leiði af stjórnvaldsfyrirmælum í samræmi við bestu fáanlegar upplýsingar á hverjum tíma.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. mars 2022.

  

  

Hér með tilkynnist að embætti umboðsmanns Alþingis hefur lokið athugun sinni á breytingum sem leiddu af þágildandi reglugerð nr. 90/2022, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sem tók gildi 29. janúar sl. en með reglugerðinni var almennt viðmið fjöldatakmarkana rýmkað úr tíu í 50 manns, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Framangreindar samkomutakmarkanir sem kveðið var á um í umræddri reglugerð voru byggðar á minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðis­ráð­herra frá 26. janúar sl. þar sem lögð var fram áætlun um afléttingu opinberra sóttvarnaraðgerða. Í minnisblaðinu kom m.a. fram að með tilkomu nýs ómikron-afbrigðis veirunnar væri faraldurinn breyttur. Í því sambandi var bent á að þótt afbrigðið væri mun meira smitandi en fyrri afbrigði ylli það sjaldnar alvarlegum veikindum auk þess sem tölu­verð fækkun hefði orðið á innlögnum á sjúkrahús vegna COVID-19, þ. á m. gjörgæsluinnlögnum.

Af þessu tilefni var heilbrigðisráðherra ritað bréf 9. febrúar sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvaða gögn, upplýsingar eða röksemdir hafi legið til grundvallar því mati ráðherra að „brýna nauðsyn“ hefði borið til að miða samkomutakmarkanir við 50 manns, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 90/2022, með tilteknum undantekningum, og þeirri niður­stöðu að önnur vægari úrræði m.t.t. stjórnarskrárvarinna réttinda borgaranna hefðu ekki verið tiltæk. Þá var óskað upplýsinga um með hvaða hætti ráðherra hefði lagt sjálfstætt og heildstætt mat á tillögur í minnisblaði sóttvarnalæknis frá 26. janúar sl. sem lá til grundvallar reglugerðinni. Í því sambandi var sérstaklega óskað upplýsinga um hvort aflað hefði verið álits annarra sérfræðinga en sóttvarnalæknis, hvort sem var innan eða utan ráðuneytisins, á stöðu faraldursins með tilliti til þess hvaða aðgerða brýn nauðsyn krefðist.

Í svari heilbrigðisráðuneytisins 22. febrúar sl. er greint frá þeirri upplýsingaöflun sem ráðist var í af hálfu ráðuneytisins í aðdraganda að setningu reglugerðarinnar og tekið fram að samráð hafi verið haft við fjölda aðila, m.a. innan heilbrigðiskerfisins sem og stýrihóp viðbragðsaðila um COVID-19. Ráðherra hafi við ákvörðun um að miða samkomutakmarkanir við 50 manns litið til þess að skerðingar hafi verið miklar fram að setningu reglugerðar nr. 90/2022. Ráðherra hafi því ákveðið að rýmka fjöldatakmarkanir úr 10 í 50 til samræmis við sjónarmið um meðalhóf, sbr. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997, sem og rýmka þær skorður sem settar höfðu verið á starfsemi vegna sérstakrar smithættu, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Þá segir að ráðherra hafi þannig haft til hliðsjónar þau stjórnarskrárvörðu réttindi borgaranna sem vísað var til í bréfi umboðsmanns.

Í svarinu segir einnig að með hliðsjón af þeirri lagaskyldu sem hvíli á stjórnvöldum að sporna við útbreiðslu farsóttar í samfélaginu hafi það verið mat ráðherra að mikið rýmri viðmið um fjöldatakmarkanir en 50 manns hefðu stefnt verndarhagsmunum um líf og heilsu manna í hættu. Ráðherra hafi lagt sjálfstætt og heildstætt mat á þá verndar­hagsmuni sem menn njóti á grundvelli stjórnarskrár. Það hafi verið mat hans að í aðdraganda þeirrar ákvörðunar, að miða fjöldatakmarkanir við 50 manns, að brýn nauðsyn krefðist þess að viðhalda fjöldatakmörkunum til verndar lífi og heilsu manna og tryggja viðbragðshæfni heilbrigðis­stofnana. Þá er í bréfinu sérstaklega vísað til þess að frá því síðsumars 2021 hafi ráðuneytið leitað allra leiða til að auka viðnámsþrótt heilbrigðiskerfisins með sérstökum aðgerðum til að takast á við faraldurinn í bólusettu samfélagi með öðrum leiðum en sóttvarnaráð­stöfunum sem hafi hjálpað talsvert.

Í ljósi fyrrgreindra skýringa heilbrigðisráðuneytisins, svo og þess að téð reglugerð hefur nú verið felld úr gildi og öllum takmörkunum vegna COVID-19 að fullu aflétt, er það álit umboðsmanns að ekki séu efni til að taka téð ákvæði þágildandi reglugerðar nr. 90/2022 til frekari athugunar. Engu að síður tel ég rétt að árétta mikilvægi þess til framtíðar að ráðherra leggi sjálfstætt og heildstætt mat á þau atriði sem máli skipta við setningu stjórnvaldsfyrirmæla í þágu sóttvarna og vísað er til í 2. og 3. mgr. 12. gr. laga nr. 19/1997. Fer þannig ekki á milli mála að ráðherra ber að vega og meta þá almannahagsmuni sem til stendur að vernda, svo sem líf og heilsu borgaranna, með tilliti til þeirra hagsmuna eða réttinda sem skerðingin bitnar á, einkum þeirra sem njóta verndar stjórnarskrárinnar. Þótt ráðherra kunni að styðjast við ráðgjöf og tillögur sérhæfðs stjórnvalds við rannsókn á tilteknum atriðum haggar það ekki skyldu hans til sjálfstæðs og heildstæðs mats að þessu leyti. Verður þá einnig að hafa í huga að þegar um er að ræða heimildir í lögum sem miðast við tímabundnar aðstæður ber stjórnvaldi að leggja reglubundið mat á hvort skilyrðum sé á hverjum tíma fullnægt til að viðhalda áfram þeim skerðingum sem leiða af stjórnvaldsfyrirmælum í samræmi við bestu fáanlegar upplýsingar á hverjum tíma.

   

   

Bréf heilbrigðisráðuneytis til umboðsmanns