Fullnusta refsinga. Öryggisdeild. Rannsóknarreglan. Skráningarskylda. Meðalhófsreglan. Aðbúnaður í fangelsum. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Evrópskar fangelsisreglur.

(Mál nr. 11373/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins þar sem staðfest var að nýju ákvörðun forstöðumanns Fangelsisins Litla-Hrauni um að hann skyldi fluttur á öryggisdeild fangelsisins í þrjá mánuði, þar sem hann dvaldi einsamall. Ráðuneytið hafði áður kveðið upp úrskurð í málinu í tilefni kæru A meðan á vistun hans á öryggisdeild stóð. Í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns vegna fyrri kvörtunar A vegna málsins afturkallaði ráðuneytið fyrri úrskurð sinn vegna annmarka á rannsókn þess og tók það til meðferðar á ný.

Athugun umboðsmanns var afmörkuð við það hvort ráðuneytið hefði lagt fullnægjandi grundvöll að niðurstöðu sinni í málinu til samræmis við áskilnað rannsóknarreglu stjórnsýslulaga með hliðsjón af aðstæðum A, aðbúnaði hans á öryggisdeildinni og mögulegum áhrifum vistunarinnar á hann, einkum með tilliti til sjónarmiða um meðalhóf. Umboðsmaður tók fram að með þeirri lagaheimild sem vistun A á öryggisdeild byggðist á hefði stjórnvöldum verið fengið ákveðið svigrúm til mats. Þegar ákvörðun stjórnvalds byggðist á matskenndum lagagrundvelli, líkt og hér um ræddi, yrði að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar væru til að hægt væri að beita þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ætlunin væri að byggja stjórnvaldsákvörðun á.

Umboðsmaður benti á að við mat á því hvort vista ætti A á öryggisdeildinni hefði ekki einungis átt að taka mið af sjónarmiðum um öryggi heldur einnig horfa til heilsu hans og velferðar. Liður í því væri að læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður legði mat á ástand hans og fylgdist með áframhaldandi líðan. Í því sambandi var einkum haft í huga hvort í einhverjum atriðum hefði verið mögulegt að beita minna íþyngjandi úrræðum við vistunina til að draga úr neikvæðum áhrifum hennar við þær aðstæður að andleg eða líkamleg heilsa A hefði verið metin bágborin, s.s. með auknum möguleikum á félagslegum samskiptum, útiveru, líkamsrækt eða annarri iðju.

Það var niðurstaða umboðsmanns að þótt ráðuneytið hefði leitast við að bæta úr annmörkum á rannsókn málsins við endurupptöku þess hefði ekki legið fyrir viðunandi skráning mikilvægra atriða þannig að fullnægt væri kröfum upplýsingalaga. Þá hefði einnig verið langt um liðið frá því atvik málsins gerðust og því erfiðleikum bundið að upplýsa þau eftir öðrum leiðum. Þannig hefði ráðuneytið ekki haft fullnægjandi forsendur til að taka afstöðu til þess hvort A hefði við vistun á öryggisdeild notið þeirra réttinda sem lög og reglur áskilja, þ. á m. eftirlits heilbrigðisstarfsfólks, eða hvort meðalhófs hefði verið gætt við tilhögun vistunarinnar. Ráðuneytið hefði því ekki sinnt rannsóknarhlutverki sínu í samræmi við stjórnsýslulög og þá ábyrgð sem hvíldi á því sem eftirlitsaðila gagnvart Fangelsismálastofnun.

Beindi umboðsmaður því til ráðuneytisins að meta hvort unnt væri að rétta hlut A með öðrum hætti en að fjalla um málið á nýjan leik enda væru ekki forsendur til þess þar sem langt væri liðið frá því að vistun hans á öryggisdeild lauk. Með tilmælunum væri þó engin afstaða tekin til þess hvort A kynni að eiga rétt á skaðabótum enda þyrftu dómstólar að skera úr um slíkt. Loks voru ítrekaðar fyrri ábendingar umboðsmanns til ráðuneytisins þess efnis að skoða hvort tilefni sé til að búa vistun fanga á öryggisdeild tryggari og vandaðri umgjörð í lögum en nú er. Þá mæltist umboðsmaður til þess að ráðuneytið tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 21. júní 2023.