Málefni fatlaðs fólks. Börn. Almannatryggingar. Sjúkratryggingar. Hjálpartæki. Lögmætisreglan. Lögskýring.

(Mál nr. 11910/2022)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis f.h. dóttur sinnar og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem staðfest var ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja henni  um styrk til kaupa á þríhjóli á þeim grundvelli að fyrirhuguð notkun tækisins uppfyllti ekki skilyrði reglugerðar um styrki vegna hjálpartækja og laga um sjúkratryggingar.

Umfjöllun umboðsmanns var afmörkuð við hvort nefndin hefði lagt fullnægjandi grundvöll að niðurstöðu sinni með hliðsjón af stöðu umsækjandans sem fatlaðs barns og þar með hvort úrskurður hennar hefði verið í samræmi við lög. Þar sem niðurstaða í málinu var að verulegu leyti byggð á að rétt hefði verið að synja um styrkinn þar sem þríhjólið væri ætlað til afþreyingar var einnig fjallað um hvort ákvæði í reglugerð um styrki vegna hjálpartækja, sem lagt var til grundvallar niðurstöðu nefndarinnar, samrýmdist lögum.

Reglugerð um styrki vegna hjálpartækja var sett með stoð í 26. gr. laga um sjúkratryggingar þar sem m.a. kemur fram að hjálpartæki verði að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs. Umboðsmaður taldi að þótt að ráðherra væri ætlað töluvert svigrúm til mats við mótun nánari reglna um hvaða hjálpartæki sjúkratryggingar tækju þátt í að greiða, og að hve miklu leyti, yrði m.a. að líta til efnisreglna laga um réttindi fatlaðs fólks, svo og þjóðréttarlegra skuldbindinga ríkisins. Hann taldi að hvorki orðalag laganna né tiltæk lögskýringargögn bæru með sér að löggjafinn hefði lagt þröngan skilning til grundvallar hugtakinu „athafnir daglegs lífs“ hvað varðaði fötluð börn og réttindi þeirra til leiks og tómstunda, eða að ætlunin hefði verið að draga úr þeim réttindum sem fötluðu fólki bæri að tryggja samkvæmt reglum þjóðaréttar. Þá taldi hann að við setningu reglugerðar hefði ráðherra borið að stuðla að því, eftir því sem kostur væri, að fólk með fötlun gæti notið þeirra réttinda.

Umboðsmaður gerði nánari grein fyrir ákvæðum í innlendri löggjöf, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins um aðstoð við fötluð börn og aðgengi þeirra að leikjum, tómstundum og frístunda- og íþróttastarfi. Með vísan þeirra gat hann ekki fallist á að hjálpartæki, sem nauðsynleg væru eða hentug til leiks og tómstunda barna með fötlun, féllu utan efnismarka 26. gr. laga um sjúkratryggingar. Þvert á móti taldi hann að ganga yrði út frá því að með ákvæðinu svo og síðari lagasetningu, hefði vilji löggjafans staðið til þess að stutt væri við möguleika barna með fötlun til leiks og tómstunda til jafns við önnur börn eftir því sem unnt væri. Hann taldi því að ráðherra hefði m.a. borið að tryggja, að því marki sem honum var unnt, að ekki væri dregið úr þeim réttindum sem fólki með fötlun væru tryggð í stjórnarskrá, lögum og alþjóðasamningum. Umboðsmaður taldi að ráðherra hefði einnig borið að horfa til þess hvort með ákvæðum reglugerðar kynni að vera um of þrengt að svigrúmi sjúkratrygginga, og eftir atvikum úrskurðarnefndar velferðarmála, til að leggja sjálfstætt og einstaklingsbundið mat á hvort hjálpartæki teldist nauðsynlegt eða hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs eins og það hugtak yrði réttilega skýrt. Þar sem umrætt reglugerðarákvæði fór í sér fortakslaust bann við greiðslu sjúkratrygginga á styrkjum vegna hjálpartækja, sem væru eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar (þ. á m. útivistar og íþrótta), og var þannig til þess fallið að koma í veg fyrir að stofnunin horfði til þeirra réttinda fatlaðra barna sem grein var gerð fyrir í álitinu taldi umboðsmaður að það ætti sér að þessu leyti ekki fullnægjandi stoð í 26. gr. laga um sjúkratryggingar.

Umboðsmaður taldi einnig að úrskurðarnefnd velferðarmála hefði verið rétt að fjalla um umsóknina á þann veg að samrýmdist lögum og leggja þá mat á hvort þríhjólið teldist auðvelda umsækjandanum að takast á við athafnir daglegs lífs eins og það hugtak yrði skýrt réttri lögskýringu. Hann gat því ekki fallist á þá afstöðu nefndarinnar, sem kom fram við athugun málsins hjá umboðsmanni, að þar sem reglugerðinni hefði ekki enn verið breytt að þessu leyti hefði ekki verið grundvöllur til að endurskoða úrskurð í málinu. Það var álit umboðsmanns að mat nefndarinnar á umsókninni hefði byggst á röngum grundvelli og úrskurður hennar væri þar af leiðandi í ósamræmi við lög.

Umboðsmaður mæltist til þess að nefndin tæki málið til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis, og leysti þá úr málinu í samræmi við sjónarmið rakin í álitinu. Þar sem heilbrigðisráðuneytið hafði upplýst að unnið væri að breytingum á umræddu reglugerðarákvæði taldi umboðsmaður ekki ástæðu til sérstakra tilmæla þar að lútandi.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 21. júlí 2023.