Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Rannsóknarreglan. Eftirlit stjórnsýsluaðila. Upphaf stjórnsýslumáls.

(Mál nr. 12094/2023)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði Persónuverndar. Með úrskurðinum komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að vinnsla landlæknis á persónuupplýsingum um A, sem fólst í miðlun persónuupplýsinga um hann til samtakanna B í kjölfar ábendinga þeirra um ætlaða illa meðferð sjúklinga á Y-deild sjúkrahússins X, þar sem hann starfaði, hefði samrýmst ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Lutu upplýsingarnar að því að A væri kominn í ótímabundið leyfi frá störfum og annar væri tekinn við starfi hans. Byggðist niðurstaða Persónuverndar m.a. á því að samtökin hefðu átt aðild að stjórnsýslumáli hjá landlækni og með miðlun upplýsinganna hefði embættið leitast við að virða lögbundinn upplýsingarétt þeirra samkvæmt stjórnsýslulögum.

Athugun umboðsmanns var afmörkuð við það hvort sú forsenda fyrir niðurstöðu Persónuverndar, að samtökin hefðu átt aðild að stjórnsýslumáli hjá embætti landlæknis, hefði verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður benti á að aðild að stjórnsýslumáli réðist af mati á hagsmunum og tengslum einstaklings eða lögaðila við úrslausnarefni málsins nema annað leiddi af lögum. Án tillits til álitaefna sem kynnu að vakna við slíkt mat yrði þó eðli málsins samkvæmt að liggja fyrir að um eiginlegt stjórnsýslumál væri að ræða svo viðkomandi nyti þeirrar réttarstöðu sem af slíkri aðild leiddi.

Umboðsmaður gerði grein fyrir lögbundnu eftirliti landlæknis með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Vísaði hann til þess að lög gerðu greinarmun á eftirliti landlæknis m.t.t. þess hvort það lyti að faglegum kröfum til heilbrigðisþjónustu og skilyrðum heilbrigðislöggjafar til hennar, almennum erindum vegna samskipta við veitendur heilbrigðisþjónustu, formlegum kvörtunum eða eftirliti með heilbrigðisstarfsmönnum. Það réðist af lagagrundvelli þess eftirlits, sem fram færi hverju sinni, hvaða reglur giltu um málsmeðferð embættisins og hvaða skyldur hvíldu á því í því sambandi. Taldi umboðsmaður það því hafa haft grundvallarþýðingu fyrir úrlausn Persónuverndar að fyrir lægi á hvaða lagagrundvelli landlæknir hefði farið með ábendingar B.

Að mati umboðsmanns lágu ekki fullnægjandi upplýsingar fyrir Persónuvernd til að slá því föstu að athugun landlæknis í kjölfar ábendinga B hefði talist stjórnsýslumál eða mál sem lyti ákvæðum stjórnsýslulaga. Þar sem Persónuvernd kannaði þetta atriði ekki nánar var það álit hans að úrskurður stofnunarinnar hefði ekki verið reistur á fullnægjandi grundvelli m.t.t. rannsóknarskyldu hennar samkvæmt stjórnsýslulögum.

Umboðsmaður mæltist til þess að mál A yrði tekið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og leyst yrði úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hefðu verið í álitinu. Jafnframt beindi hann því til Persónuverndar að framvegis yrði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem þar kæmu fram.

  

Umboðsmaður lauk málinum með áliti 28. ágúst 2023.