Lögreglu- og sakamál. Eftirlit stjórnsýsluaðila. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Frávísun. Málshraði.

(Mál nr. 11750/2022)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun nefndar um eftirlit með lögreglu um að vísa erindi hans frá nefndinni. Í kvörtun A til umboðsmanns voru fyrst og fremst gerðar athugasemdir við að nefndin hefði ekki lagt fullnægjandi mat á framkomnar athugasemdir A við verklag lögreglu. Í ljósi þeirrar niðurstöðu nefndarinnar að vísa erindi A frá laut athugun umboðsmanns fyrst og fremst að afmörkun nefndarinnar á starfssviði hennar.

Í álitinu fjallaði umboðsmaður um það eftirlitskerfi sem komið hefur verið á fót með störfum lögreglu. Benti umboðsmaður því næst á að þótt nefnd um eftirlit með lögreglu hefði víðtækar heimildir til eftirlits með störfum lögreglu væri ljóst að takmarkanir væru á því hve langt þær heimildir næðu m.t.t. rannsóknar einstakra mála. Þannig leiddi af sjálfstæði ríkissaksóknara og lögbundnu eftirlitshlutverki hans og valdsviði að það væri ekki hlutverk nefndarinnar að endurskoða eða fjalla um þær ákvarðanir lögreglu sem féllu með skýrum hætti undir eftirlit embættisins sem æðsta handhafa ákæruvalds. Þá væri ljóst að nefndin hefði ekki heimildir til að beina fyrirmælum til lögreglu vegna rannsóknar einstakra mála.

Umboðsmaður taldi hins vegar að athugasemdir A hefðu m.a. lotið að starfsaðferðum og verklagi lögreglu og þá án tillits til afstöðu lögreglunnar til sakamálarannsóknarinnar. Þannig yrði ráðið af kvörtun hans til nefndarinnar að hann teldi að starfsaðferðir lögreglu í málinu hefðu ekki verið í samræmi við lög auk þess sem verklag hennar hefði ekki verið ásættanlegt. Taldi umboðsmaður að við þessar aðstæður hefði ekkert verið því til fyrirstöðu að nefndin tæki athugasemdirnar til skoðunar og fjallaði þá um hvort aðferðir lögreglunnar hefðu verið í samræmi við grundvallarreglur laga eða, eftir atvikum, almennt og viðtekið verklag án þess að í því fælist endurmat á beitingu rannsóknarúrræða eða afstaða til þess hvort málið hefði átt að sæta frekari rannsókn. Hefði efnisleg umfjöllun nefndarinnar um þessi atriði þannig lotið að öðrum atriðum en þær ákvarðanir lögreglustjóra og ríkissaksóknara um rannsókn málsins sem þegar hefðu legið fyrir. Nefndin hefði því verið bær til að taka erindið til efnislegrar meðferðar þótt úrlausn hennar yrði að taka mið af þeim takmörkunum á heimildum hennar sem leiddu af lögum. Það var því álit umboðsmanns að það hefði fallið undir starfssvið nefndarinnar að fjalla efnislega um kvörtun A að því marki sem hún beindist að starfsaðferðum og verklagi lögreglunnar.

Umboðsmaður fjallaði jafnframt um málshraða hjá nefndinni og benti á að mál A hefði fyrst verið tekið fyrir á fundi nefndarinnar rúmum sex mánuðum eftir að umbeðin gögn frá lögreglu hefðu borist nefndinni. Nefndin hefði þá um þremur mánuðum síðar lokið málinu með því að vísa því frá. Taldi umboðsmaður að sá dráttur sem hefði orðið á afgreiðslu málsins hefði ekki verið í nógu góðu samræmi við málshraðareglu stjórnsýsluréttar.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að haga meðferð mála framvegis í samræmi við sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Hefði umboðsmaður þá einkum í huga að framvegis yrði gætt að því í störfum nefndarinnar að hún kannaði að eigin frumkvæði hvort og að hvaða marki kvörtun beindist efnislega að starfsaðferðum og verklagi lögreglunnar og þá að því gættu að í því fælist ekki endurskoðun eða mat á ákvörðunum um rannsókn máls.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 6. október.