Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð. Sveitarfélög. Valdframsal. Valdþurrð. Endurupptaka. Frávísun. Úrskurðarhlutverk.

(Mál nr. 11797/2022)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem beindist að úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun fjölskylduráðs Hafnarfjarðarkaupstaðar um að vísa frá áfrýjun A vegna ákvörðunar fjölskyldu- og barnamálasviðs sveitarfélagsins um að synja beiðni hans um sérstakan húsnæðisstuðning. Frávísunin var byggð á því að fjögurra vikna áfrýjunarfrestur til ráðsins væri liðinn. Áður hafði nefndin vísað frá kæru A vegna sama máls á þeim grundvelli að nauðsynlegur undanfari kæru til nefndarinnar væri að málið hlyti fyrst afgreiðslu fjölskylduráðs.  

Athugun umboðsmanns beindist að því hvort síðari úrskurður nefndarinnar hefði samræmst lögum og þá m.a. með hliðsjón af því hvort ákvörðun Hafnarfjarðarkaupstaðar um að synja A um sérstakan húsnæðisstuðning hefði verið tekin af þar til bærum aðila innan sveitarfélagsins. Í ljósi þess að nefndin hafði lagt mál A í ákveðinn farveg með fyrri úrskurði sínum taldi umboðsmaður þó að ekki yrði lagt mat á síðari úrskurðinn án þess að vikið yrði að þeim fyrri að því marki sem hann hefði þýðingu fyrir úrlausn málsins.

Þar sem deildarstjóra fjölskyldu- og barnamálasviðs hafði ekki verið falin heimild til fullnaðarafgreiðslu umsókna um sérstakan húsnæðisstuðning í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins þegar hann synjaði umsókn A gerði umboðsmaður ekki athugasemdir við þá forsendu nefndarinnar að afgreiðsla fjölskylduráðs hefði verið nauðsynlegur undanfari kæru til nefndarinnar. Umboðsmaður gat hins vegar ekki fallist á þá niðurstöðu nefndarinnar í síðari úrskurði hennar að þegar deildarstjórinn hafnaði umsókninni hefði tekið að líða frestur sem A hafði til að bera málið undir réttan aðila innan sveitarfélagsins, þ.e. fjölskylduráð, enda fengi sú niðurstaða ekki stoð í lögum. Var þá horft til þess að eðli málsins samkvæmt fól erindi A til fjölskylduráðs hvorki í sér stjórnsýslukæru né beiðni um endurupptöku með málskoti innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heldur bar að líta á það sem beiðni um efnislega afgreiðslu á umsókn hans af hálfu þar til bærs aðila innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Að þessu virtu taldi umboðsmaður að síðari úrskurður nefndarinnar hefði ekki verið reistur á réttum lagalegum grundvelli. 

Umboðsmaður taldi jafnframt að þar sem úrskurðarnefndin lagði til grundvallar fyrri úrskurði sínum í máli A að deildarstjóri hefði ekki haft heimild til fullnaðarafgreiðslu umsókna um sérstakan húsnæðisstuðning hefði henni borið að meta hvað réttaráhrif sú valdþurrð hefði, svo sem hvort ákvörðunin ætti engu að síður að halda réttaráhrifum sínum eða hvort hún yrði felld úr gildi og þá eftir atvikum vísað heim til nýrrar meðferðar hjá sveitarfélaginu. Nefndin hefði hins vegar enga afstöðu tekið til þessara atriða í úrskurði sínum. Af síðari úrskurði nefndarinnar yrði síðan ekki annað ráðið en að nefndin hafi talið ákvörðun deildarstjórans hafa haldið réttaráhrifum sínum þrátt fyrir þá valdþurrð sem vikið hafði verið að í fyrri úrskurðinum. Var það mat umboðsmanns að sú afstaða nefndarinnar væri í berlegu ósamræmi við þá fyrri niðurstöðu hennar að fjalla ekki efnislega um kæru A í fyrra málinu heldur vísa henni frá á þeim forsendum sem gert var. Í heild sinni hefði þetta misræmi í vinnubrögðum nefndarinnar orðið til þess að A naut ekki þess réttaröryggis sem lög um úrskurðarnefnd velferðarmála, svo og almennar reglur stjórnsýsluréttar um stjórnsýslu­­kærur, gerðu ráð fyrir.

Að lokum taldi umboðsmaður að málsmeðferð sveitarfélagsins og málatilbúnaður þess fyrir nefndinni hefði átt að gefa henni tilefni til að kanna betur á hvaða grundvelli sveitarfélagið taldi sig hafa afgreitt málið og bregðast þá við með viðeigandi hætti.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að taka mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og leysa úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hefðu verið í álitinu. Jafnframt beindi hann því til nefndarinnar að framvegis yrði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem þar kæmu fram.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 23. október 2023.