13. janúar 2015

Afgreiðslu á 87,5% kvartana sem bárust 2014 lokið um áramót

Fjöldi nýrra kvartana hjá umboðsmanni Alþingis á árinu 2014 var 492.

Það er nánast sami fjöldi kvartana og árið 2013. Umboðsmaður hóf jafnframt athugun á tveimur málum að eigin frumkvæði. Afgreidd mál voru alls 558, en voru 543 árið 2013 og fjölgaði því lítillega.

Í árslok 2014 var afgreiðslu lokið á 87,5% eða 430 þeirra kvartana sem bárust á árinu. Nær 60% þeirra var lokið innan eins mánaðar. Hlutfallslega er það tvöföldun frá árunum 2012 og 2013, en þá var í kringum 30% afgreiddra mála sem bárust á þeim árum lokið innan mánaðar. Um 90% málanna var lokið innan fjögurra mánaða og nær 96% innan sex mánaða frá því að kvörtun barst.

Málshraði

Árangurinn af auknum hraða við afgreiðslu kemur einnig fram í því að um áramótin 2014/2015 voru 78 mál til athugunar hjá umboðsmanni en voru 142 um áramótin 2013/2014. Mál til athugunar hjá umboðsmanni um áramót hafa ekki verið færri síðan á árunum 2005 og 2006. Þá var árlegur fjöldi nýrra kvartana um 300.

Af þeim 78 málum sem voru til athugunar við síðustu áramót var beðið eftir gögnum og skýringum frá stjórnvöldum í 41 tilviki, ellefu mál voru hjá þeim sem höfðu borið fram kvartanir til athugasemda við skýringar stjórnvalda, sex mál voru í frumathugun hjá umboðsmanni og sex mál biðu frekari athugunar að fengnum gögnum og skýringum stjórnvalda. Í öllum nema einu síðastnefndu málanna bárust svör stjórnvalda í desember 2014. Jafnframt biðu afgreiðslu fjórtán mál sem ýmist eru frumkvæðisathuganir eða kvartanir sem tengjast slíkum athugunum. Athuganirnar hófust fyrir árið 2014.

Athugun á tveimur kvörtunum sem bárust á árinu 2013 er ólokið. Í öðru tilvikinu er beðið eftir skýringum stjórnvalda. Í hinu er beðið eftir athugasemdum frá þeim sem leitaði til umboðsmanns við skýringar stjórnvaldsins. Skýringarnar bárust í desember sl. en óskað hafði verið eftir þeim í janúar á því ári.

Styttri afgreiðslutíma mála hjá umboðsmanni má fyrst og fremst rekja til breytinga sem gerðar voru á verklagi við móttöku og afgreiðslu á nýjum kvörtunum í lok árs 2013. Í því felst að einn og sami lögfræðingurinn annast móttöku á öllum nýjum kvörtunum viku í senn og sér um að gera tillögur að fyrstu viðbrögðum umboðsmanns. Löglærður skrifstofustjóri embættisins hefur umsjón með móttöku og úrvinnslu á nýjum kvörtunum og verkstjórn við afgreiðslu mála. Með þessu breytta verklagi hefur einnig verið unnt að koma við breyttu verklagi við úrvinnslu þeirra mála sem koma til frekar skoðunar hjá umboðsmanni að lokinni öflun gagna og skýringa frá stjórnvöldum. Samhliða breytingum á verklagi og skipulagi við úrvinnslu mála voru í lok árs 2013 gerðar þær breytingar á starfsmannahaldi embættisins að fjölgað var um einn lögfræðing og ráðið var í starf aðstoðarmanns umboðsmanns en sá lögfræðingur vinnur sérstaklega með umboðsmanni að lokaafgreiðslu mála. Frekari breytingar á fjölda starfsmanna hafa ekki orðið á árinu 2014. Starfsmenn eru nú ellefu auk umboðsmanns.

Í ljósi þess árangurs sem hefur náðst við af stytta afgreiðslutíma kvartana en nú miðað við að fyrstu athugun umboðsmanns á kvörtun, svo sem á því hvort hún uppfylli lagaskilyrði til þess að vera tekin til nánari skoðunar og hvaða gagna og skýringa þarf í upphafi að afla frá stjórnvöldum,  sé að jafnaði lokið innan fjögurra vikna frá móttöku kvörtunar. Þurfi umboðsmaður að afla gagna og skýringa frá stjórnvöldum er endanlegur afgreiðslutími mála hjá umboðsmanni m.a. háður því hvenær svörin berast. Miðað við núverandi afgreiðslutíma mála er stefnt að því að ákvörðun umboðsmanns um endanlegar lyktir máls liggi fyrir eigi síðar en 3 mánuðum frá því að síðustu skýringar og athugasemdir berast embætti hans.

Eftir því sem tekist hefur að bæta málshraða við afgreiðslu á kvörtunum hefur verið lögð áhersla á að ljúka vinnu við eldri frumkvæðismál sem hafa verið til skoðunar hjá umboðsmanni um nokkurt skeið. Formleg frumkvæðismál hafa hins vegar aðeins verið stofnuð í undantekningartilvikum og síðustu  þrjú ár hafa þau verið eitt eða tvö á ári. Þegar umboðsmaður hefur talið ástæðu til hefur hann aftur á móti óskað eftir upplýsingum frá stjórnvöldum til að geta metið hvort tilefni sé til þess að hefja formlega frumkvæðisathugun. Það var gert í 19 tilvikum á árinu 2014 og eru það svokallaðar „forathuganir“. Í einu þeirra tilvika ákvað umboðsmaður að nýta heimild sína til að taka mál til formlegrar athugunar en í fjórum tilvikum taldi hann ekki tilefni til að hefja slíka athugun. Í 14 tilvikum er ýmist beðið eftir upplýsingum frá stjórnvöldum eða ekki hefur verið tekin afstaða til framhalds málsins. Stefnt er að því að ljúka afgreiðslu á öllum frumkvæðismálum sem þegar hafa verið stofnuð og fullnægjandi svör stjórnvalda hafa fengist við á fyrstu mánuðum þessa árs. Það sama á við um þær forathuganir sem fyrir liggja.

Þá er vonast til þess að breytt verkefnastaða hjá embætti umboðsmanns Alþingis geri kleift að auka og bæta upplýsingagjöf á heimasíðu embættisins um afgreidd mál. Auk þess að gera þar grein fyrir þeim málum sem lokið er með álitum var á árinu 2011 byrjað að gera grein fyrir öðrum afgreiðslum mála, svo sem hvers vegna málum hefði verið vísað frá eða lokið með öðrum hætti. Þessum upplýsingum var ætlað að gefa þeim sem kunna að hafa í huga að leita til umboðsmanns og starfsfólki stjórnsýslunnar betri yfirsýn yfir þau mál sem berast til umboðsmanns og afgreiðslur þeirra. Vegna álags við önnur verkefni, svo sem afgreiðslu nýrra kvartana, og stöðu fjárveitinga þurfti að gera hlé á þessu verkefni á árinu 2012. Nú er ætlunin að taka á ný til við þetta verkefni.

Málshraði

Innkomin og afgreidd mál