02. júní 2017

Samningar við einkaaðila um fjárframlög ríkisins

Árið 2007 birtust fréttir í fjölmiðlum af ýmsum samningum og viljayfirlýsingum sem þáverandi ráðherrar gerðu við einkaaðila um fjárframlög ríkisins til ákveðinna verkefna án þess að Alþingi hefði veitt heimild til þeirra. Þetta voru samningar um fjárframlög til ákveðinna framkvæmda og þess voru dæmi að því væri lýst að verja ætti söluandvirði tiltekinna eigna til verkefnisins.

Þessi tilvik vöktu upp spurningar um hvaða lagaheimildir stæðu til þess að ráðherrar gæfu slíkar viljayfirlýsingar eða undirrituðu samninga án þess að afstaða Alþingis lægi fyrir, en umboðsmaður taldi sig hafa orðið varan við að það tíðkaðist í auknum mæli. Jafnframt vakti þetta upp spurningar um hvaða þýðingu slíkir gerningar kynnu að hafa gagnvart viðsemjendum, m.a. í ljósi sjónarmiða um réttmætar væntingar og afstöðu Hæstaréttar Íslands til skuldbindingargildis samninga sem ráðherrar hefðu gert þegar fjárheimild Alþingis fengist ekki. Þannig voru þessar athafnir með vissum hætti fallnar til að vekja væntingar hjá viðkomandi aðilum um fjármuni til ákveðinna verkefna og framkvæmda, stundum samhliða framlögum frá öðrum. Í sumum tilvikum var að finna í samningunum kvaðir gagnvart viðsemjendum, m.a. um nýtingu fasteigna og fjármuna, og því gat reynt á hvernig færi um efndir vegna þeirra og heimildir ríkisins til að fylgja þeim eftir. Af þessari ástæðu ákvað umboðsmaður að hefja frumkvæðisathugun á málefninu.

Með samþykkt nýrra laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, hafa orðið breytingar á lagareglum um þessi mál og þar með þeim grundvelli sem athugunin beindist að. Ákvörðun um að hefja athugun á málefninu var reist á þeim reglum og sjónarmiðum sem voru talin gilda um heimildir ráðherra til yfirlýsinga og samningsgerðar án aðkomu Alþingis í gildistíð eldri laga um fjárreiður ríkisins. Að virtum breytingum á lagaumhverfinu telur umboðsmaður ekki tilefni til að halda henni áfram í þeim farvegi sem hann hafði lagt grunninn að og hefur því ákveðið að ljúka málinu. Hann telur þó ástæðu til að koma þeirri ábendingu á framfæri við fjármála- og efnahagsráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að við framkvæmd hinna nýju lagaákvæða um heimildir til samninga og um styrki verði hugað að þeim álitaefnum sem urðu tilefni frumkvæðismálsins og þá út frá sjónarmiðum um stöðu viðsemjenda ríkisins að því er varðar væntingar þeirra og lagagrundvöll þeirra kvaða sem fram koma í samningum og þá um efni og efndir þeirra.

Bréf umboðsmanns Alþingis til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins er birt hér.