29. janúar 2018

Staða útlendinga sem tala ekki íslensku

Fjölgun þeirra sem hér starfa og dvelja og ekki eru mæltir á íslensku er umboðsmanni tilefni til að kanna hvernig stjórnvöld standa að svörum og túlkun vegna þessa hóps.


Íslenska er samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu mál stjórnvalda og stjórnvöld skulu leitast við að tryggja að sá sem skilur ekki íslensku geti fengið úrlausn erinda sinna og tileinkað sér efni skjala og skilríkja sem skipta hann máli. Í málum sem komið hafa til kasta umboðmanns Alþingis að undanförnu hefur verið bent á að útlendingar sem hér starfa og dvelja eigi stundum í erfiðleikum með að fá svör og leiðbeiningar frá stjórnvöldum á tungumáli sem þeir skilja. Þá eru dæmi um að erlendir einstaklingar hafi orðið of seinir að leggja fram stjórnsýslukæru þar sem kæruleiðbeiningar til þeirra voru eingöngu á íslensku.

Af þessu tilefni telur umboðsmaður rétt að kanna nánar hvernig staðið er að upplýsingagjöf og leiðbeiningum stjórnvalda, almennt sem og við úrlausn einstakra mála, til erlendra einstaklinga. Umboðsmaður óskaði því með bréfi 15. janúar sl. eftir upplýsingum frá 25 aðilum innan stjórnsýslunnar þar sem við úrlausn mála má ætla að reyni á samskipti við einstaklinga sem ekki eru mæltir á íslensku. Meðal þeirra sem hér um ræðir eru Sjúkratryggingar Íslands, Vinnumálastofnun, Þjóðskrá Íslands, Útlendingastofnun, dómsmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið, og svið velferðarmála og skóla- og frístundamála hjá tilteknum sveitarfélögum, t.d. Reykjavíkurborg, Reykjanesbæ og Akureyrarbæ. Í bréfinu er óskað eftir upplýsingum um fyrirliggjandi verklag við ofangreindar aðstæður, t.d. um hvernig brugðist er við erindum sem berast á öðru tungumáli en íslensku og eftir atvikum óskum aðila um að þeim sé útvegaður túlkur og/eða þýðingar við úrlausn mála hjá stjórnvaldinu. Þá er óskað eftir tölulegum upplýsingum, séu þær fyrir hendi, og afritum af tilteknum gögnum, liggi þau fyrir, s.s. stöðluðu kynningarefni og kæruleiðbeiningum á erlendum tungumálum.

Líkt og að framan greinir voru send út 25 bréf í þessu máli en til hliðsjónar má sjá bréf embættisins til Sjúkratrygginga Íslands hér.