Dýralæknar í opinberri þjónustu skulu hafa vald á íslenskri tungu.
Í lögum frá 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er tekið fram að íslenska sé mál stjórnvalda. Af því leiðir að stjórnvöld þurfa við framkvæmd á starfsemi sinni og í samskiptum við borgaranna að gæta þess að þeir eigi kost á að fá leyst úr málum sínum á íslensku. Á þetta getur t.d. reynt þegar stjórnvöld hafa farið þá leið að ráða í þjónustu sína starfsmenn sem ekki hafa vald á íslenskri tungu. Umboðsmaður lauk nýverið umfjöllun sinni um kvörtun frá Dýralæknafélagi Íslands (mál nr. 9510/2017) þar sem kvartað var yfir því að Matvælastofnun hefði um skeið ráðið til starfa dýralækna í eftirlitsstörf sem ekki hefðu vald á íslensku og þær skýrslur og athugasemdir sem þeir hefðu beint til eftirlitsskylda aðila hefðu verið á ensku.
Dýralæknafélagið vísaði til þess í kvörtun sinni að í lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr væri gerð krafa um að dýralæknar sem störfuðu í opinberri þjónustu skyldu hafa vald á íslenskri tungu. Í áliti sínu féllst umboðsmaður á þessar athugasemdir félagsins og beindi þeim tilmælum til Matvælastofnunar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að gera ráðstafanir til að starfshættir Matvælastofnunar yrðu framvegis í samræmi við lagaákvæði sem gera kröfu um kunnáttu dýralækna í íslensku og þá kröfu laga að íslenska væri mál stjórnsýslunnar hér á landi. Umboðsmaður féllst þannig ekki á þau sjónarmið stofnunarinnar og ráðuneytisins að um neyðarráðstöfun hefði verið að ræða þar sem ekki hefði verið kostur á að ráða dýralækna sem hefðu vald á íslensku. Umboðsmaður tók fram að þar sem stjórnvöld hefðu ekki í málinu vísað til reglna um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins hefði athugun hans ekki beinst að hugsanlegri þýðingu þeirra við ráðningu umræddra starfsmanna.
Athugun umboðsmanns laut jafnframt að viðbrögðum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við erindum dýralæknafélagsins. Umboðsmaður taldi að viðbrögð ráðuneytisins hefðu ekki verið í samræmi við athafnaskyldu ráðherra á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda hans gagnvart Matvælastofnun sem væri fyrir hendi þar sem umboðsmaður fengi ekki annað ráðið en að stofnunin glímdi við vanda sem hefði verið viðvarandi og almennur í starfsemi hennar undanfarin ár og stofnuninni væri, að óbreyttu, ófært að vinna bug á honum. Við slíkar aðstæður væri ráðherra skylt að grípa til raunhæfra og virkra úrræða til að ráða bót á vandanum.
Álit umboðsmanns í máli nr. 9510/2017 frá 24. apríl 2018 má lesa hér.