25. maí 2018

Börn og ungmenni fái að tjá sig

Í stjórnsýslu eru teknar ýmiss konar ákvarðanir sem hafa bein og óbein áhrif á líf barna og ungmenna. Þau njóta jafnframt opinberrar þjónustu af margvíslegum toga, s.s. í heilbrigðis- og menntakerfinu.

Börn og ungmenni verða lögráða við 18 ára aldur og meðan þau eru ólögráða  fyrir æsku sakir ráða þeir sem fara með forsjána persónulegum högum þeirra. Forsjáraðilanum er þannig með lögum falið að vera í ákveðnu fyrirsvari fyrir barnið eða ungmennið. Það breytir því ekki að viðfgangsefni mála sem stjórnsýslan fjallar um og varða hagsmuni barna og ungmenna geta verið þess eðlis að miðað við aldur og þroska viðkomandi barns eða ungmennis sé rétt og eðlilegt að það eigi sjálft kost á því og geti haft aðkomu að ákvörðunum í slíkum málum.  Nú er það meginreglan að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess og barn skuli eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem það varða og tekið skuli réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.

Á síðari árum hefur verið lögð aukin áhersla á þessi sérstöku réttindi barna og þar hefur tilkoma samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögfestur var á Íslandi 2013, og breyting sem gerð var á barnalögum á árinu 2012 til samræmis við samninginn haft veigamikla þýðingu. Að auki hafa  sjónarmið um það sem nefnt hefur verið barnvænleg réttarvarsla fengið aukið vægi. Málsmeðferð í stjórnsýslu þarf að taka mið af þessum breyttu lagareglum og viðhorfum.

Þegar börn eru aðilar stjórnsýslumáls eða málið varðar hagsmuni þeirra að öðru leyti þarf að gæta þess að stjórnsýslan sé þeim aðgengileg, að málsmeðferð sé hagað þannig að hæfi aldri þeirra og þroska, að málshraði sé viðhlítandi, réttur þeirra til að taka þátt í og skilja málið sé virtur og að réttmætt tillit sé tekið til skoðana þeirra. Þetta á við þrátt fyrir að foreldri eða annar forsjáraðili fari með fyrirsvar fyrir þau.

Í nýlegu áliti umboðsmanns taldi hann frávísun Persónuverndar á kvörtun móður 14 ára stúlku yfir myndbirtingu af henni á Netinu, án þess að leitast við að afla afstöðu dótturinnar sjálfrar til málsins áður en það var til lykta leitt, ekki hafa samrýmst lögum. Álitið er birt hér.