27. júní 2018

Áhrif búsetutíma erlendis á rétt til örorkulífeyris

Í lögum um almannatryggingar kemur fram að búsetutími á Íslandi hafi áhrif þegar fjárhæð örorkulífeyris frá Tryggingastofnun er ákveðinn en við þær ákvarðanir getur reynt á samspil laganna og reglna EES-réttarins um sama efni. Umboðsmaður hefur lokið athugun sinni á máli einstaklings sem búið hafði í EES ríki í rétt um fimm ár frá 16 ára aldri og sá búsetutími átti samkvæmt ákvörðunum stjórnvalda að leiða til þess að viðkomandi fengi 21,79% af fullum örorkulífeyri á Íslandi. Umboðsmaður taldi að sú aðferð sem stjórnvöld höfðu beitt væri ekki í samræmi við lög.

Þegar einstaklingar, sem búsettir hafa verið í öðrum ríkjum EES-svæðisins, sækja um greiðslur úr almannatryggingakerfinu getur reynt á samspil íslenskra laga um almannatryggingar og reglna EES-réttarins um sama efni sem og frjálsa för fólks. Þetta samspil á sérstaklega við um réttindi sem byggjast á búsetu um tiltekinn tíma á Íslandi, s.s. rétt til örorkulífeyris.

Evrópureglugerð um samræmingu almannatryggingakerfa, sem byggir á grunnreglum EES-réttarins um frjálsa för fólks, er ætlað að koma í veg fyrir að fólk sem flytur milli ríkja innan EES-svæðisins missi almannatryggingaréttindi sem það hefur áunnið sér í viðkomandi ríkjum. Í reglugerðinni er því m.a. kveðið á um söfnun tímabila, þannig að litið sé á búsetu í öðrum ríkjum EES-svæðisins eins um búsetu væri að ræða í því ríki sem ákvarðar bætur, og um rétt til hlutfallslegra bóta frá hverju því ríki sem viðkomandi hefur verið búsettur í. Eftir sem áður er það löggjöf hvers ríkis sem ákvarðar skilyrði örorkulífeyris.

Meðal ástæðna fyrir setningu þessara reglna EES-réttarins er að þeim sé beitt EES-borgurum til hagsbóta þegar beiting viðkomandi landslöggjafar væri annars óhagstæðari. Það leiðir af Evrópureglugerðinni og þeim grunnreglum sem hún byggir á að henni verður almennt ekki beitt ef viðkomandi nyti betri réttar samkvæmt landslögum eingöngu, enda séu uppfyllt skilyrði viðkomandi löggjafar til bóta án tillits til búsetu innan annarra EES-ríkja. Í ljósi þess að Evrópureglugerðin hefur verið innleidd í íslenskan rétt með reglugerð eru enn fremur takmörk á því að hvaða marki hún gæti skert réttindi sem kveðið er á um í lögum.

Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 20. júní sl. reyndi m.a. á hvort stjórnvöld hefðu haft lagaheimild til að ákvarða hlutfall búsetutíma umsækjanda um örorkulífeyri á Íslandi með tilteknum hætti, sem þau byggðu einkum á Evrópureglugerðinni. Afleiðingar þessarar aðferðar voru að viðkomandi, sem naut ekki sambærilegra greiðslna frá hinu búseturíki sínu innan EES, taldist einungis eiga rétt á greiðslu 21,79% af fullum örorkulífeyri á Íslandi. Í áliti sínu komst umboðsmaður að því að Evrópureglugerðin veitti ekki skýra heimild til að beita þessari aðferð í umræddu tilviki og þá yrði ekki betur séð en að það hefði verið viðkomandi til hagsbóta að byggja einungis á íslenskum lögum. Benti hann á að íslensk stjórnvöld höfðu túlkað og beitt því ákvæði í lögum um almannatryggingar sem fjallaði um ákvörðun búsetutíma með öðrum og meira ívilnandi hætti í tilvikum þeirra sem búsettir höfðu verið utan EES-svæðisins. Beiting stjórnvalda á Evrópureglugerðinni leiddi því til lakari réttar til örorkulífeyris fyrir þá sem búsettir höfðu verið í EES-ríki en uppfylltu ekki skilyrði til greiðslu örorkulífeyris þar í landi.

Álit umboðsmanns í máli nr. 8955/2016 frá 20. júní 2018 má lesa hér.