21. ágúst 2018

Skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2017 komin út

Í ársskýrslu umboðsmanns Alþingis 2017 er gerð grein fyrir starfsemi embættisins á árinu, meðal annars fjölda mála og helstu álitaefnum sem til kasta þess komu.

Skýrslan hefur að geyma úrlausnir kjörins umboðsmanns, Tryggva Gunnarssonar, sem og úrlausnir Þorgeirs Inga Njálssonar sem var settur umboðsmaður samhliða kjörnum umboðsmanni frá 1. september til ársloka.

Á árinu 2017 voru 389 ný mál skráð og fækkaði þeim um 6,9% frá 2016. Lokið var 358 málum á liðnu ári samanborið við 420 árið áður. Í árslok 2017 var búið að afgreiða liðlega fjórar af hverjum fimm kvörtunum sem bárust á árinu. Rúmum helmingi þeirra var lokið innan mánaðar, tæplega 90% innan fjögurra mánaða og um 95% á hálfu ári sem er áþekkt hlutfall og undanfarin ár. Langalgengasta umkvörtunarefnið, líkt og fyrri ár, er vegna tafa á afgreiðslu mála hjá hinu opinbera eða rúmur fimmtungur.

Skipulagi embættisins var breytt á árinu þegar sérstakri starfseiningu var komið á laggirnar til að takast á við frumkvæðisathuganir. Eitt nýtt frumkvæðismál var tekið upp á árinu og fjórum lokið. Um áramót voru á þriðja tug mála til athugunar hjá frumkvæðiseiningunni.

Á árinu 2017 var hafinn undirbúningur að því að umboðsmaður taki við svonefndu OPCAT-eftirliti á grundvelli valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Eftirlitið beinist að stöðum þar sem einstaklingar dvelja sem eru, eða kunna að vera, sviptir frelsi sínu. Áætlað er að eftirlitið hefjist í haust.

Umboðsmanni ber að tilkynna stjórnvöldum ef hann verður þess áskynja að einhverjir meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Fimm málum lauk með slíkum tilkynningum.

Fjórtán álit voru gefin út á árinu. Í tíu þeirra var sérstökum tilmælum beint til stjórnvalda þar sem annmarkar þóttu á málsmeðferð og í 12 voru sett fram almenn tilmæli. Í nær öllum tilvikum þar sem máli var lokið hefur verið farið að tilmælum umboðsmanns en tvö þeirra eru enn til meðferðar. Þá er vakin athygli á því í skýrslunni að ekki hafi fengist svör frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna eins máls þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir þar að lútandi.

Í stað þess að fjalla um mál í áliti þá hefur færst í vöxt á undanförnum árum að umboðsmaður sendi stjórnvöldum athugasemdir og ábendingar um eitt og annað sem færa má til betri vegar í stjórnsýslunni. Slíkt var gert í 38 tilvikum á liðnu ári.

Vakin er athygli á því að frá og með þessari skýrslu er skrá yfir málanúmer, lagaskrá og atriðisorðaskrá aðeins birt á vef umboðsmanns en ekki í prentaðri útgáfu skýrslunnar.

Ársskýrsla 2017