15. október 2018

Brýnt að fá svör um úrbætur í málum geðsjúkra fanga

Skortur á skýrum svörum ráðuneyta um hvað gera eigi til að tryggja mannréttindi geðsjúkra fanga með fullnægjandi hætti, leiddi til þess að umboðmaður Alþingis kynnti forsætisráðherra málið með tilliti til  lögbundins hlutverks að samhæfa stefnu og aðgerðir ráðherra.

Í bréfi sem umboðsmaður hefur sent heilbrigðisráðherra kemur fram að hann hafi um langt skeið skrifast á við ráðuneyti dómsmála og heibrigðismála vegna geðheilbrigðisþjónustu fanga. Fangelsismálayfirvöld hafi lýst áhyggjum sínum af því að á Litla-Hrauni hafi verið vistaðir fangar með alvarleg geðræn vandamál. Dómsmálaráðuneytið hefur tekið undir slíkar áhyggjur í svörum til umboðsmanns og enn fremur lýst að framkvæmd laga um fullnustu refsinga tryggi ekki með fullnægjandi hætti réttindi fanga samkvæmt mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.

Umboðsmaður hafi í ljósi þessa óskað í maí sl. eftir frekari upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu til að sjá hvort þessi afstaða ráðuneytisins myndi leiða til aðgerða. Af þeim svörum og öðrum, við fyrirspurnum til ráðuneytanna beggja, verði ekki séð að þessum málum hafi enn verið komið í skýran farveg. Hvorki virðist hafa verið gerðar áætlanir til úrbóta né teknar ákvarðanir til að bregðast við. Því óskar umboðsmaður eftir því í bréfi sínu til heilbrigðisráðherra að fá sem allra fyrst svör við því hvað ráðuneytið ætli að gera í þessari stöðu. Greiða þurfi úr með samstarfi dómsmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis og eftir atvikum annarra stjórnvalda.

Síðustu ár hefur umboðsmaður ítrekað vakið athygli á nauðsyn þess að bætt verði úr geðheilbrigðisþjónustu við fanga og bent á að hún sé líklega ekki í samræmi við mannréttindareglur. Svör yfirvalda hafa jafnan verið á þá leið að unnið sé að úrbótum og nefnd eða starfshópur hafi fjallað um málið eða að skipa ætti slíkan hóp til þess að fjalla um málið og koma með tillögur. Staða þessara mála hefur því lítið breyst.

Í bréfi sínu til heilbrigðisráðherra minnti umboðsmaður á að honum hefði verið falið svokallað OPCAT- eftirlit sem fyrirhugað er að hefjist í október. Því sé nauðsynlegt að geta sem allra fyrst lokið athugun á þessum þætti í heilbrigðisþjónustu við fanga og þá eftir atvikum gert Alþingi grein fyrir málinu. Óskað er eftir svari frá ráðuneytinu eigi síðar en 31. október nk.

Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands skal forsætisráðherra beita sér fyrir því að stefna og aðgerðir ráðherra á einstökum sviðum séu samhæfðar ef á þarf að halda. Áðurnefndur skortur á skýrum svörum ráðuneytanna varð til þess að umboðsmaður sendi forsætisráðherra afrit af bréfinu til heilbrigðisráðherra og þeim bréfum sínum og svarbréfum ráðuneytanna sem vísað er til. Yrði móttaka forsætisráðherra á þessu bréfi tilefni til athafna í samræmi við niðurlag 8. gr. laga um Stjórnarráð Íslands óskaði umboðsmaður eftir að verða upplýstur um slíkt.

Bréf umboðsmanns til heilbrigðisráðherra getur að líta hér.

 

Tengdar fréttir

Framkvæmd laga tryggir ekki mannréttindi fanga – UA óskar eftir svörum um úrbætur

 

Drög að skýrslu um fangelsið á Litla-Hrauni

 

Umboðsmaður tekur við OPCAT-eftirliti