30. október 2018

Fyrsta OPCAT-heimsókn umboðsmanns

Heimsóknir umboðsmanns Alþingis vegna svokallaðs OPCAT-eftirlits, með stöðum þar sem fólk dvelur sem er eða kann að vera svipt frelsi sínu, eru hafnar. Eftirlitið grundvallast á sérstakri bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Eftirlitið fer fram með heimsóknum og úttektum á þeim stöðum sem undir það falla.

Fyrsta heimsóknin stendur yfir í þessari viku á þremur deildum geðsviðs Landspítalans á Kleppi í Reykjavík. Auk skoðunar á aðbúnaði og starfsháttum er rætt við þá sem þar dvelja, starfsfólk og fleiri ef tilefni þykir til, svo sem aðstandendur. Sérstök áhersla er lögð á trúnaðarsamtöl við þá sem dvelja á staðnum. Skoðuð eru samskipti þeirra bæði við starfsfólk og sín á milli. Sérstaklega er gætt að húsakosti og verklagi er lýtur að hugsanlegum þvingunum og öryggisráðstöfunum. Þá er meðferð og skráning gagna könnuð, svo eitthvað sé nefnt.

Skýrsla er gerð eftir hverja heimsókn. Í henni er greint frá niðurstöðum og eftir atvikum ábendingum sem lúta að úrbótum í starfseminni. Skýrslurnar verða birtar á vefsíðu umboðsmanns auk þess sem hann skilar árlega skýrslu um eftirlitið til Alþingis.

Alþingi fól umboðsmanni að annast þetta eftirlit hér á landi, líkt og tíðkast bæði á hinum Norðurlöndunum og í mörgum öðrum Evrópuríkjum og veitti sérstaka fjárveitingu til verkefnisins frá og með árinu 2018. Þetta eftirlit er starfrækt innan frumkvæðiseiningar umboðsmanns en forstöðumaður hennar er Vilhelmína Ósk Ólafsdóttur lögfræðingur. Vegna þessara auknu verkefna hafa tveir nýir starfsmenn verið ráðnir. Anna Kristín Newton sálfræðingur vinnur sérstaklega að OPCAT-eftirlitinu og Hjalti Geir Erlendsson lögfræðingur sinnir því einnig ásamt fleiri verkefnum. Að einstökum heimsóknum koma jafnframt aðrir starfsmenn umboðsmanns auk utanaðkomandi sérfræðinga eftir þörfum. Þannig hafa Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, og Maren Albertsdóttir, aðstoðarmaður umboðsmanns, tekið þátt í þeirri heimsókn sem nú stendur yfir á Kleppi.

Með frelsissviptingu í OPCAT-bókuninni er átt við hvers konar gæslu, fangelsun eða vistun af hálfu hins opinbera eða einkaaðila, þar sem einstaklingurinn hefur ekki leyfi til að yfirgefa vistunina vegna úrskurðar, ákvörðunar eða samþykkis dómstóls, stjórnvalds eða annars yfirvalds. Undir þetta geta einnig fallið tilvik þar sem yfirvöld láta frelsissviptingu óátalda. Fjöldi þeirra staða sem eftirlitið tekur til getur verið breytilegur sem og fjöldi þeirra sem þar dvelja. Sem dæmi um staði sem falla undir eftirlitið má nefna fangelsi, lögreglustöðvar, lokaðar deildir á geðsjúkrahúsum, tiltekin vistunarúrræði á vegum barnaverndaryfirvalda og fyrir fólk með geðraskanir og geðfatlanir.

Næsta eftirlitsheimsókn vegna OPCAT-eftirlits umboðsmanns verður síðar á þessu ári í vistunarúrræði á vegum barnaverndaryfirvalda.

 

Tengdar fréttir

Umboðsmaður tekur við OPCAT-eftirliti