31. október 2018

Annmarkar á aðalnámskrá grunnskóla

Vegna annmarka á viðmiðum í aðalnámskrá grunnskóla hefur umboðsmaður mælst til þess að mennta- og menningarmálaráðuneytið fylgi eftir áformum sínum um að endurskoða viðmiðin.

Í grunnskólalögum er skólastjórum falið að meta hvort veita eigi nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein. Foreldrar nemanda í 1. bekk höfðu beðið um undanþágu frá skólasundi. Beiðninni hafði verið synjað af skólastjóra og sú ákvörðun staðfest af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Var í þeim efnum einkum vísað til þess að ekki væri heimilt að veita nemendum í 1.-7. bekk slíka undanþágu samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla.

Í áliti sínu benti umboðsmaður á að fortakslaust orðalag þess viðmiðs í aðalnámskrá sem byggt var á í málinu, um að skólastjóri veiti nemendum í 1. – 7. bekk ekki undanþágu frá skólaíþróttum vegna íþróttaþjálfunar hjá íþróttafélagi, væri ekki í samræmi við heimild í grunnskólalögum.  Þar væri skólastjórum falið að meta hverju sinni hvort veita ætti slíka undanþágu. Umboðsmaður taldi að ráðuneytið hefði ekki sýnt fram á að niðurstaða þess hefði tekið með fullnægjandi hætti, mið af því skyldubundna mati sem mælt væri fyrir um í grunnskólalögum. Úrskurður þess hefði því ekki verið í samræmi við lög.

Vakti umboðsmaður athygli á meinbugum á orðalagi þeirra viðmiða í aðalnámskrá grunnskóla sem byggt var á í málinu og beindi þeim tilmælum  til ráðuneytisins að fylgja eftir áformum um að endurskoða umrædd viðmið í námskránni. Þá taldi hann tilefni til að beina því til ráðuneytisins að kynna stjórnendum grunnskóla þau sjónarmið sem kæmu fram í álitinu samhliða breyttum viðmiðum í aðalnámskrá.

 Álit umboðsmanns í máli nr. 9616/2018