02. nóvember 2018

Hver fer með ráðningarvald hjá sveitarfélögum?

Í lögum eru gerðar ákveðnar kröfur um að sveitarstjórnir hafi tekið ákvörðun ef vald til ráðningar á starfsmönnum sveitarfélags er fært frá framkvæmdastjóra þess. Í nýju áliti vakti umboðsmaður athygli á mikilvægi þess að betur verði hugað að ákvæðum laga og framkvæmd við framsal á ráðningarvaldi starfsmanna innan sveitarfélaga. Handhafi ráðningarvaldsins verði að byggja vald sitt á ákvörðun sveitarstjórnar.

Ábendingar umboðsmanns eru m.a. til komnar vegna starfsmannamála sveitarfélaga sem hafa komið inn á borð hans á undanförnum misserum. Í áliti umboðsmanns frá 26. október 2018 var fjallað um ráðningar á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur. Þar hafði safnstjóri falið tveimur starfsmönnum safnsins að ákveða hvaða umsækjendur skyldi ráða í tvö störf og falið öðrum þeirra að sjá um ráðningarferlið. Umboðsmaður taldi framsal ráðningarvaldsins ekki í samræmi við lög og reglur um valdmörk innan Reykjavíkurborgar. Af þessu tilefni taldi hann jafnframt ástæðu til að fjalla almennt um framsal ráðningarvalds hjá sveitarfélögum, þar á meðal birtingu ákvarðana um slíkt valdframsal.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er það í höndum framkvæmdastjóra sveitarfélags að ráða starfsmenn í aðrar stöður en æðstu stjórnunarstöður þess. Sveitarstjórn er hins vegar heimilt að ákveða annað fyrirkomulag, annaðhvort í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins eða með almennum fyrirmælum. Töluverður munur er á leiðunum tveimur. Samþykktir um stjórn sveitarfélaga lúta skýrum lagareglum um form og efni, s.s. um birtingu. Sveitarstjórnarlög eru aftur á móti fáorð um hvaða kröfur eru gerðar til almennra fyrirmæla.

Í ljósi þess tilgangs sem lægi til grundvallar því að í lögum væri mælt fyrir um þessar tvær leiðir benti umboðsmaður á að birta yrði ákvarðanir af þessu tagi með opinberum hætti og hafa þær aðgengilegar almenningi. Þrátt fyrir að lögin væru ekki skýr um hvert skyldi vera inntak almennra fyrirmæla, væri ljóst að handhafi ráðningarvalds yrði að byggja vald sitt á ákvörðun sveitarstjórnar.

Umboðsmaður benti ráðherra sveitarstjórnarmála á að orða þurfi skýrar ákvæði í sveitarstjórnarlögum um að sveitarstjórnir geti með almennum fyrirmælum fært ráðningarvald frá framkvæmdastjóra. Þá eigi ákvarðanir sveitarstjórna um framsal ráðningarvalds að vera aðgengilegar borgurunum.

Álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9561/2018