14. nóvember 2018

Verklagi við skráningu lögheimilis breytt eftir fyrirspurnir umboðsmanns

Í kjölfar fyrirspurna frá umboðsmanni hefur verklagi við skráningu lögheimilis hjá þjóðskrá verið breytt í tilteknum málum. Þar með lauk forathugun hans á málinu.

Tilefni athugunarinnar var fréttaflutningur um að lögheimili manns hefði verið flutt til annars lands að honum forspurðum. Ákvarðanir um breytt lögheimili geta haft veruleg áhrif á réttarstöðu viðkomandi, s.s. í heilbrigðis- og tryggingakerfinu og vegna félagsþjónustu sveitarfélaga. Umboðsmanni þótti því ástæða til að afla upplýsinga um þetta verklag.

Í svari frá þjóðskrá kom m.a. fram að lögheimili mannsins hefði verið breytt í kjölfar staðfestingar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á samkomulagi um forsjá og meðlag sem maðurinn átti aðild að og var einnig grundvöllur slita á skráðri sambúð. Þar hafi komið fram að maðurinn byggi erlendis og lögheimilinu því verið breytt í samræmi við vinnureglur hjá þjóðskrá.

Umboðsmaður ákvað að kanna nánar hvernig staðið væri að meðferð mála þar sem lögheimili er breytt án þess að fyrir liggi skýr beiðni viðkomandi um það. Þar með talið þegar breytingin er byggð á gögnum sem komið hafa fram við meðferð máls af hálfu annars stjórnvalds.

Upplýst var í bréfi frá þjóðskrá að í ljósi þessa máls hefði verið ákveðið að breyta verklagi þegar svona hátti til. Þegar tilkynningar bærust samhliða úrlausn mála hjá sýslumanni yrði tryggt að viðkomandi staðfesti sjálfur nýtt lögheimili áður en því væri breytt í þjóðskrá.

Í framhaldinu fékk umboðsmaður upplýsingar um að fulltrúar þjóðskrár og sýslumanns hefðu farið yfir verkferil og greitt úr málinu. Í bréfi frá þjóðskrá kom einnig fram að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið væri að kanna möguleika á að fjalla með skýrari hætti um skráningu lögheimilis við sambúðaslit, skilnað að borði og sæng og lögskilnað í nýrri reglugerð um lögheimili og aðsetur sem verið væri að útfæra.

Með hliðsjón af þessu taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka málið til formlegrar athugunar.

Skoða nánar