19. desember 2018

Skilyrði stjórnvalda fyrir útgáfu atvinnuleyfis verða að eiga sér lagastoð

Útgáfa opinbers leyfis til að stunda atvinnustarfsemi getur ekki verið háð afstöðu einkaaðila ef hún kann að byggjast á öðrum þáttum en gerð er krafa um í lögum. Ákvörðun stjórnvalda, um að kafari fengi ekki leyfi til leiðsögu- og yfirboðsköfunar með ferðamenn, á þeim grundvelli einum að hann hefði ekki verið handhafi tiltekinna réttinda frá alþjóðlegu köfunarsamtökunum PADI og þar með félagi í þeim, var því ekki í samræmi við lög að áliti umboðsmanns.

Samgöngustofa hafði hafnað beiðni kafarans um leyfið með vísan til þess að réttindi hans væru útrunnin og var sú ákvörðun staðfest af hálfu innanríkisráðuneytisins. Forsendur stjórnvalda voru þær að kafarinn hefði ekki uppfyllt skilyrði reglugerðar um köfun, þar sem hann hefði ekki haft réttindi sem svokallaður PADI Divemaster eða önnur sambærileg réttindi. Maðurinn hafði hins vegar starfað sem atvinnukafari og m.a. aflað sér réttindanna áður en honum var vikið úr samtökunum. Í úrskurði ráðuneytisins kom fram að kafarinn hefði lokið prófi frá viðurkenndum aðila og uppfyllti auk þess önnur skilyrði laga og reglugerðar um köfun.

Af úrskurðinum taldi umboðsmaður mega ætla að stjórnvöld gerðu í reynd að skilyrði að viðkomandi hefði jafnframt þurft að eiga aðild að PADI eða öðrum sambærilegum samtökum til að fá leyfið. Í því sambandi benti hann á að lög um köfun kvæðu á um tiltekin skilyrði fyrir útgáfu leyfa til atvinnukafara, m.a. um menntun og hæfni þeirra. Þótt vissulega mætti fallast á að slík réttindi gætu að einhverju marki falið í sér útfærslu á menntunar- og hæfniskröfum yrði að líta til þess að aðild að slíkum samtökum gæti verið háð öðrum atriðum. Í því sambandi vakti hann athygli á að kafarinn hefði ekki fengið aðild sína að PADI endurnýjaða vegna ágreinings sem virtist hafa snúið að tilteknum þáttum í innri starfsemi samtakanna en ekki hæfni hans eða réttindum sem hann hefði þegar öðlast.

Að áliti umboðsmanns átti umrætt skilyrði reglugerðar eins og það var túlkað af hálfu stjórnvalda, um að kafarinn hefði þurft að framvísa réttindum útgefnum af einkaréttarlegum samtökum án þess að lagt hefði verið mat á menntun hans og hæfni, sér ekki lagastoð. Ákvörðun Samgöngustofu, sem staðfest var í úrskurði innanríkisráðuneytisins, hafi því ekki verið í samræmi við lög.

Þeim tilmælum var beint til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að taka máli til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá kafaranum og haga þá úrlausninni í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hefðu verið í álitinu. Jafnframt að ráðuneytið hefði þau framvegis í huga við úrlausn sambærilegra mála.

Í ljósi yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverks samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins taldi umboðsmaður einnig tilefni til að vekja athygli þess á afstöðu Samgöngustofu til eftirlitshlutverks hennar samkvæmt lögum um köfun. Þá benti hann á að ekki hefði verið sett reglugerð á þeim grundvelli eins og gert væri ráð fyrir.

Álit umboðsmanns í máli nr. 9517/2017