16. janúar 2019

84% kvartana frá 2018 lokið - dráttur á svörum stjórnvalda tefur afgreiðslu

Á síðasta ári voru stofnuð 384 mál hjá umboðsmanni, þar af var 381 kvörtun og þrjú frumkvæðismál. 406 málum lauk á árinu, þar af þremur frumkvæðismálum. Að auki voru tíu mál tekin til forathugunar á liðnu ári og 26 lokið.

Öllum kvörtunum nema tveimur frá árinu 2017 var lokið í fyrra. Í þeim tilfellum bárust ekki svör frá stjórnvöldum, þrátt fyrir ítrekanir, fyrr en í nýliðnum desember. Umboðsmaður skilaði áliti í 27 málum samanborið við 14 árið áður. Að meðaltali bárust 32 kvartanir í mánuði á síðasta ári sem er nánast sami fjöldi og 2017 þegar þær voru alls 388 eða fjórum fleiri en nú.

2018.png

Af þeim kvörtunum sem stofnað var til á síðasta ári var lokið við tæplega 84% fyrir áramót. Liðlega sex af hverjum tíu var lokið innan mánaðar frá upphafsdegi þeirra. Meira en þrjár af hverjum fjórum voru afgreiddar innan tveggja mánaða og níu af hverjum tíu innan fjögurra mánaða.

Afgreidsluhradi.png

Um áramótin voru 72 mál til meðferðar sem er tæplega fjórðungi minna en á sama tíma ári áður. Þar af voru 63 mál vegna kvartana og 9 frumkvæðismál, tvö þeirra ný en sjö eldri. Til viðbótar voru síðan 21 mál vegna forathugana en þar er um að ræða upplýsingaöflun áður en tekin er ákvörðun um hvort viðkomandi mál verður tekið til frumkvæðisathugunar. Af áðurnefndum 72 málum var beðið svara frá stjórnvöldum í 31 máli og umsagna þeirra sem kvörtuðu í tíu öðrum. Um áramót var því þrjátíu og eitt mál hjá umboðsmanni. Af þeim voru 10 skráð ný í desember og í átta öðrum barst svar í þeim mánuði. Í þremur málum bárust svör frá stjórnvöldum í nóvember og í fjórum til viðbótar upp úr miðjum september til loka október. Öll þau mál voru í lokavinnslu við áramótin.

Stada_mala.png

Eins og að ofan er getið þá tókst ekki að ljúka tveimur málum frá 2017 þar sem svör bárust ekki frá stjórnvöldum fyrr en eftir töluverða eftirgangsmuni. Til að umboðsmaður geti rækt lögbundið eftirlitshlutverk sitt hefur hann lagt áherslu á við stjórnvöld að sinna þeirri lagaskyldu sinni að láta honum í té nauðsynlegar upplýsingar, skýringar og gögn þegar eftir því er leitað.

Stjórnvöld stundum sein til svars

Á síðasta ári bar nokkuð á því að dráttur á svörum frá stjórnvöldum leiddi til tafa á afgreiðslu kvartana sem umboðsmanni bárust. Af hálfu umboðsmanns hefur verið lögð áhersla á að þeir sem til hans leita fái eins fljótt og kostur er niðurstöðu um þá kvörtun sem þeir bera fram. Í þeim tilvikum þegar umboðsmaður þarf að afla upplýsinga og skýringa frá stjórnvöldum skiptir því máli að umbeðin gögn frá stjórnvöldum berist sem allra fyrst. Hér þarf að hafa í huga að eftirlit umboðsmanns beinist almennt að málum sem stjórnvöld hafa þegar afgreitt og fyrirspurnir umboðsmanns beinast því að þeim forsendum og gögnum sem sú afgreiðsla byggði á. Hluti fyrirspurna umboðsmanns er í tilefni af kvörtunum yfir drætti á afgreiðslu stjórnvalda á erindum borgaranna og þá reynir á að stjórnvöld hafi glögga yfirsýn yfir stöðu mála og áætlaðan afgreiðslutíma þeirra. Með þessari frétt eru birtar tölulegar upplýsingar og töflur sem unnar eru reglulega á skrifstofu umboðsmanns til að fylgjast með stöðu mála hjá umboðsmanni. Þetta efni er m.a. birt í dæmaskyni um það með hvaða hætti stjórnvöld geta nýtt tölulegar upplýsingar til að fylgjast með afgreiðslutíma mála.

Nýtt verkefni og lögum breytt

Umboðsmaður tók við nýju verkefni á síðasta ári þegar OPCAT-eftirlit  hans hófst. Í því felst að fylgjast með framkvæmd hér á landi á samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frelsissviptra. Eftirlitið fer fram með heimsóknum og úttektum á stöðum þar sem fólk dvelur sem er eða kann að vera svipt frelsi sínu. Af þessu tilefni voru gerðar breytingar á lögum um umboðsmann Alþingis  sem samþykktar voru 13. desember 2018. Annað nýmæli sem lagabreytingarnar fólu í sér er að þar er nú er fjallað um vernd uppljóstrara. 

Undir lok árs fór umboðsmaður og starfsfólk hans í tvær eftirlitsheimsóknir vegna OPCAT-eftirlitsins. Annars vegar á þrjár lokaðar deildir geðsviðs Landspítalans á Kleppi og hins vegar á neyðarvistunina á meðferðarstöðinni Stuðlum, hvort tveggja í Reykjavík. Unnið er að skýrslum um heimsóknirnar og verða þær birtar á vefsíðunni.