Kærustjórnvöldum, þ.m.t. kæru- og úrskurðarnefndum, ber að fjalla um málsástæður sem byggja á því að tilteknar ákvarðanir brjóti gegn stjórnarskrá og þá eins langt og úrskurðarvald þeirra nær hverju sinni. Sömu sjónarmið verður almennt að leggja til grundvallar þegar reynir á samræmi almennra laga og fjölþjóðlegra sáttmála og samninga sem Ísland hefur undirgengist.
Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns í tilefni þess að á undanförnum misserum hafa honum borist nokkur mál er varða úrlausnir úrskurðaraðila á kærustigi innan stjórnsýslunnar þar sem kvartað er yfir að þeir hafi ekki talið sig bæra til að taka afstöðu til slíkra málsástæðna kærenda. Hafa úrskurðaraðilar þá einkum borið því við að það sé einungis á færi dómstóla að skera úr um hvort lög brjóti í bága við stjórnarskrá og þeir geti ekki tekið afstöðu til slíkra málsástæðna. Sambærileg sjónarmið hafa einnig að hluta komið upp þegar reynt hefur á samspil laga og mannréttindasáttmála Evrópu og annarra fjölþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist.
Í áliti sínu mælist umboðsmaður til þess að kærustjórnvöld, sérstaklega sjálfstæðar kæru- og úrskurðarnefndir, taki slíkar málsástæður kærenda til umfjöllunar og leysi úr þeim eins og þeim er frekast unnt á grundvelli viðurkenndra lögskýringaraðferða og að því marki sem valdheimildir þeirra leyfa. Í þeim efnum bendir hann á að þrátt fyrir að nefndirnar geti ekki vikið til hliðar ákvæðum almennra laga sem þær telja ekki í samræmi við stjórnarskrá, þá sé umfjöllun þeirra mikilvæg við úrlausn mála þar sem reyni á stjórnskipulegt gildi laga, til að afstaða þeirra til slíkra málsástæðna sé ljós.
Umboðsmaður bendir jafnframt á ólíka stöðu ráðherra og sjálfstæðra kæru- og úrskurðarnefnda að þessu leyti. Þannig standi ráðherra til boða ýmsar leiðir samkvæmt lögum og stjórnskipun til að bregðast við slíkri stöðu, t.d. að kalla fram breytingar á lögum sem nefndirnar hafi ekki. Þar sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að gerð skuli úttekt á starfi slíkra nefnda þá er þeirri ábendingu komið á framfæri við forsætisráðherra að hugað verði að leiðum þar sem annars vegar verði lögð áhersla á að greiða fyrir því að aðilar kærumála í stjórnsýslunni, sem telja að lög sem stjórnsýslan byggir ákvarðanir sínar á séu ekki í samræmi við stjórnarskrána, fái með einföldum og skjótum hætti greitt úr slíkum ágreiningi. Hins vegar að þau úrræði miði að því að bæta úr ósamræmi sem stjórnvöld telja að sé milli almennra laga og stjórnarskrár.
Álit umboðsmanns í máli nr. 9937/2018