27. febrúar 2019

OPCAT-bókunin fullgilt

Ísland hefur nú fullgilt valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (OPCAT).

Hún var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember 2002 og undirrituð fyrir Íslands hönd tæpu ári síðar. Í framhaldi af því að framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fékk fullgildingarskjalið afhent í síðustu viku var því lýst yfir að fullgildingu af hálfu Íslands væri lokið.

Bókunin felur í sér eftirlit sjálfstæðra aðila sem falið er að heimsækja reglulega stofnanir eða heimili þar sem einstaklingar, sem eru eða kunna að vera frelsissviptir, búa eða dvelja. Tilgangurinn er að hindra að pyndingar eða önnur grimmileg eða vanvirðandi meðferð viðgangist. Annars vegar er um að ræða eftirlit alþjóðlegrar nefndar (SPT) og hins vegar eftirlit sem komið er á fót innan hvers aðildarríkis samkvæmt fyrirmælum bókunarinnar.

Það er umboðsmaður Alþingis sem annast eftirlitið hér á landi líkt og tíðkast á hinum Norðurlöndunum og víða annars staðar í Evrópu. Lögum um umboðsmann Alþingis var breytt með lögum nr. 147/2018, sem tóku gildi 8. janúar sl., og honum falið umrætt eftirlit. 

 

Ísland fullgildir bókun við samning um bann við pyntingum

Lögum um umboðsmann breytt

OPCAT-vefsíða umboðsmanns