07. mars 2019

Mál númer 10.000 skráð hjá umboðsmanni 

Í dag var mál númer 10.000 skráð í málaskrá umboðsmanns. Að jafnaði hafa því um 325 mál verið skráð á ári frá því að skrifstofa umboðsmanns var opnuð í júlí 1988.

Hlutverk umboðsmanns er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt einstaklinga gagnvart stjórnvöldum landsins. Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður hefur iðulega orðað það svo að viðfangsefni umboðsmanns sé því fyrst og fremst að hafa eftirlit með því að borgararnir njóti þeirra réttinda og fyrirgreiðslu sem Alþingi hafi ákveðið og að stjórnsýslan leysi úr málum þeirra í samræmi við þær reglur sem henni beri að fara eftir.

Alþingi kýs umboðsmann til fjögurra ára hverju sinni. Skal hann uppfylla skilyrði laga til að gegna embætti hæstaréttardómara og má ekki vera alþingismaður. Gaukur Jörundsson var fyrsti umboðsmaður Alþingis. Gegndi hann starfinu frá upphafi árs 1988 til 1. nóvember 1998 að hann var kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Frá þeim tíma hefur Tryggvi verið umboðsmaður Alþingis.

Þegar starfsemin hófst hafði Gaukur um árabil starfað á vettvangi mannréttindanefndar Evrópu. Bæði þar og hjá Mannréttindadómstólnum var sama skráningarkerfi viðhaft og verið hefur við lýði hjá umboðsmanni alla tíð. Fyrsta málið sem barst fékk því númerið 1 ásamt viðeigandi ártali. Tíu þúsundasta málið er þar með skráð sem 10000/2019 í málaskrá umboðsmanns. 

Timamotamal.jpg

 

Tengdar fréttir

UA 30 ára – sagan í tölum