01. apríl 2019

Breytt uppgjör andstætt reglum um stjórnsýsluframkvæmd, réttmætar væntingar og afturvirkni

Þegar stjórnvald breytir stjórnsýsluframkvæmd sem tíðkast hefur um lengri tíma án þess að lagabreyting komi til reynir á þá óskráðu reglu, sem mótast hefur m.a. í dómum Hæstaréttar, um að stjórnvald  þurfi að kynna hana með þeim hætti að þeir sem eiga hagsmuna að gæta geti gætt réttar síns. Við slíkar breytingar getur einnig reynt á réttmætar væntingar hlutaðeigandi og að slík breyting sé í reynd ekki gerð með afturvirkum hætti t.d. við birtingu reglna.

Á þetta reyndi í máli sem umboðsmaður lauk nýverið eftir að sauðfjárbóndi hafði kvartað yfir breytingum sem gerðar voru á uppgjörstímabili greiðslna árið 2017 til bænda vegna ullarnýtingar samkvæmt búvörusamningi. Niðurstaða umboðsmanns var að ráðherra hefði ekki verið heimilt  að setja með afturvirkum hætti ákvæði til bráðabirgða í reglugerð og lengja uppgjörstímabili vegna ullarnýtingar um tvo mánuði frá því sem tíðkast hafði um árabil. Það fyrirkomulag sem viðhaft var hefði ekki samrýmst þeim reglum sem viðhafa þurfi við breytingar á stjórnsýsluframkvæmd. Breytingin hafi farið gegn réttmætum væntingum ullarframleiðenda sem hefðu lagt inn ull á því tímabili sem fyrri framkvæmd tók til. Að auki hafi bráðabirgðaákvæði í reglugerðinni sem sett var, falið í sér afturvirka lagasetningu en það var birt tveimur mánuðum eftir að því uppgjörstímabili sem áður hafði verið miðað við lauk. 

Í kvörtuninni var bent á að  greiðslur til ullarframleiðenda hefðu lækkað verulega umrætt ár frá því sem orðið hefði ef fyrri framkvæmd hefði verið viðhöfð þar sem umsamin heildarfjárhæð samkvæmt búvörusamningi fyrir ullina hefði skipst niður á meira magn ullar vegna lengra tímabils. Mæltist umboðsmaður til þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerði ráðstafanir, í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu, til að rétta hlut viðkomandi og annarra ullarframleiðenda sem lagt hefðu inn ull á umræddu tímabili. Jafnframt að ráðuneytið gætti framvegis að þessum sjónarmiðum við breytingar á stjórnsýsluframkvæmd og útgáfu reglugerða af því tilefni.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 9668/2018