20. maí 2019

Stjórnvöld taki skýra afstöðu til beiðna um frest

Samkvæmt stjórnsýslulögum hefur aðili máls rétt á að krefjast þess að stjórnvald fresti afgreiðslu málsins uns honum hefur gefist tími til að kynna sér gögn og gera grein fyrir afstöðu sinni. Stjórnvald þarf að taka skýra afstöðu til slíkrar kröfu og jafnframt þarf frestur sem stjórnvald setur samkvæmt 18. gr. stjórnsýslulaga að vera skýr og ótvíræður til að hann nái tilgangi sínum.

Á þetta reyndi í nýlegu áliti þar sem niðurstaða umboðsmanns var að málsmeðferð í ráðningarmáli á Landspítala hefði ekki verið í samræmi við framangreind sjónarmið. Þar hafði umsækjandi um starf, sem hafði verið metinn hæfur til að gegna starfinu og verið tilkynnt um að hann yrði boðaður í viðtal, kvartað yfir því að spítalinn hefði haldið ráðningarferlinu áfram án þess að taka viðtal við hann.

Í málinu var einkum deilt um hvort spítalinn hefði tilkynnt hlutaðeigandi um ákveðinn frest áður en ráðningarferlinu yrði haldið áfram. Umboðsmaður benti á að í ljósi frestbeiðna viðkomandi og annarra samskipta hefði verið mikilvægt, ef spítalinn taldi aðeins afmarkaðan tíma til stefnu til að taka starfsviðtal, að gerð hefði verið grein fyrir því með skýrum og ótvíræðum hætti af hálfu spítalans. Þótt gæta þyrfti að málshraða leysti það stjórnvaldið ekki undan því að gæta að öðrum reglum stjórnsýsluréttarins og samspils þeirra við meðferð slíkra mála.

Að virtum atvikum málsins heildstætt var það álit umboðsmanns að ákvörðun Landspítalans, að halda ráðningarferlinu áfram án viðtals eftir tiltekna dagsetningu, hafi ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga um frestun máls. Jafnframt að málsmeðferðin hefði verið andstæð bæði rannsóknarreglu og andmælareglu stjórnsýslulaga, þar sem viðkomandi hefði ekki verið veitt raunhæft tækifæri til að tjá sig eða svara spurningum spítalans sem hugsanlega hefðu haft þýðingu við mat á hæfni hans til að gegna starfinu.

Mæltist umboðsmaður til þess við Landspítalann að leitað yrði leiða til að rétta hlut viðkomandi og að spítalinn tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 9810/2018