Samnorrænn fundur starfsmanna umboðsmannanna á Norðurlöndum sem sinna OPCAT-eftirliti hefst í dag í Reykjavík. Yfirskrift hans er: Siðferðislegar vangaveltur um mannréttindi þegar kemur að meðferð og öryggi þeirra sem sviptir eru frelsi sínu – hvar liggja mörkin?
Markmiðið er að gefa þátttakendum tækifæri til að ræða, leita leiða og setja fram ef svo ber undir tillögur um hvernig megi bæta stöðu þeirra sem sviptir eru frelsi sínu. Tólf manns sækja fundinn frá Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Íslandi.
Samhliða fundinum verður farið í heimsókn á lokaðar geðdeildir Klepps þar sem fundargestir fá bæði kynningu á aðstæðum frelsissviptra og fræðslu um hvernig einstaklingum, sem við ákveðnar kringumstæður geta sýnt af sér skaðlega hegðun, er sinnt. Það þykir til eftirbreytni að starfsfólk á heilbrigðisstofnunum hér á landi hefur tekist á við þessar erfiðu aðstæður án þess að nota fjötra. Á hinum Norðurlöndunum hefur misgóður árangur náðst við að draga úr notkun fjötra við þessar aðstæður. Á fundinum og í vettvangsheimsókninni gefst því gott og lærdómsríkt tækifæri að skoða, bera saman og læra hvert af öðru um hvernig bæta megi aðstæður frelsissviptra.
Norrænn samstarfsvettvangur
OPCAT-eftirlitið beinist að stöðum þar sem einstaklingar eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu. Tilgangur þess er að hindra að pyndingar eða önnur grimmileg eða vanvirðandi meðferð viðgangist á þessum stöðum. Eftirlitið byggist á bókun sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2002 og undirrituð fyrir Íslands hönd árið 2003. Forseti Íslands staðfesti bókunina með undirskrift sinni í janúar á þessu ári.
Þetta er í fyrsta skipti sem umboðsmaður Alþingis er gestgjafi á OPCAT-fundi en Ísland var síðast Norðurlandanna til að taka eftirlitið upp. Starfsfólk umboðsmanns nýtur því góðs af reynslu norrænna félaga sinna í þessum efnum. Einn liður í því samstarfi eru reglubundnir fundir sem haldnir eru tvisvar á ári.
Fyrr á þessu ári fóru fulltrúar Íslands á fund til Finnlands þar sem rætt var um stöðu fólks sem dvelur á hjúkrunarheimilum. Yfirskrift þess fundar var: Eru aldraðir á hjúkrunarheimilum sviptir frelsi sínu? Þar var farið yfir stöðu þessara mála í hverju landi fyrir sig og rætt um hvort og hvernig eftirlit er haft með meðferð aldraðra á hjúkrunarheimilum en á þessum vettvangi hefur OPCAT-eftirlitið verið lítið. Markmið fundarins var því að ræða mögulegar leiðir til að koma slíku eftirliti á sem og að deila upplýsingum og ræða þau álitaefni sem nefnd hafa verið í tengslum við mannréttindi og meðferð aldraðra á hjúkrunarheimilum.