30. ágúst 2019

Skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2018 birt

Ársskýrsla umboðsmanns fyrir 2018 kemur nú út með breyttu sniði og útliti og er nú fyrst og fremst birt rafrænt á vefnum. Í henni er gerð grein fyrir því helsta í starfi umboðsmanns á síðasta ári, fjallað um markverðustu málin og meginviðfangsefni, álit ársins reifuð og greint frá viðbrögðum stjórnvalda við þeim.

Breytt form skýrslunnar miðar bæði að því að gera efnið aðgengilegra og framsetningu þess skýrari. Eftir sem áður er lögð áhersla á að skýrslan varpi góðu ljósi á helstu þætti starfseminnar. Hún hefur að geyma úrlausnir kjörins umboðsmanns, Tryggva Gunnarssonar, sem og úrlausnir Þorgeirs Inga Njálssonar sem var settur umboðsmaður í tveimur málum sem lokið var á árinu.

Rafræn skýrsla

Með breytingu sem gerð var á lögum um umboðsmann og tók gildi í janúar 2019 er nú einungis gert ráð fyrir að skýrslan sé birt fyrir 1. september ár hvert en áður var tiltekið að hún skyldi bæði birt og prentuð fyrir það tímamark. Þessi breyting er bæði í samræmi við umhverfissjónarmið og þá áherslu að auka gildi rafrænu útgáfu skýrslunnar og annars efnis á heimasíðu umboðsmanns. Skýrslu umboðsmanns er skilað til Alþingis og kemur til umfjöllunar á þeim vettvangi. Það að birta skýrsluna fyrst og fremst með rafrænum hætti fellur einnig að þeim breytingum sem gerðar hafa verið á útgáfu og rafrænni meðferð þingskjala. Á meðal nýjunga nú er að lesendur geta smellt á málsnúmer álita í III. kafla og kallað þau þannig fram í heild sinni. Rafræn útgáfa kemur til með að leysa þá prentuðu alveg af hólmi en að þessu sinni verður skýrslan þó einnig prentuð í takmörkuðu upplagi.

Tilmæli umboðsmanns og viðbrögð stjórnvalda

Á árinu sendi umboðsmaður frá sér 27 álit sem er nær tvöfalt fleiri en 2017. Þeim eru gerð skil í skýrslunni ásamt fleiri málum sem ástæða er til að geta sérstaklega og endurspegla hvernig reyndi á tiltekna málaflokka. Greint er frá sjö málum þar sem vart varð við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Þá þótti umboðsmanni í 45 tilfellum ástæða til að benda á sitthvað annað sem betur mætti fara í stjórnsýslunni.

Í 24 tilvikum var sérstökum tilmælum beint til stjórnvalda í álitum umboðsmanns. Í 14 tilfellum hefur þegar verið farið að tilmælunum. Fimm mál eru enn til meðferðar hjá viðkomandi stjórnvaldi. Í fjórum tilfellum leitaði hlutaðeigandi ekki aftur til stjórnvaldsins með mál sitt og í einu tilviki var ekki farið að tilmælum umboðsmanns. Þá var almennum tilmælum beint til tiltekinna stjórnvalda í 37 tilvikum. Farið hefur verið að þeim í 34, tvö mál eru enn til meðferðar hjá stjórnvaldi og í einu tilfelli er ekki fyllilega ljóst hvort farið hafi verið að tilmælum umboðsmanns.

Umfangsmeiri starfsemi

Starfsemi umboðmanns jókst nokkuð að umfangi á árinu í tengslum við ný verkefni og breyttar áherslur. Eftirlit hans með stöðum þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja, svo kallað OPCAT-eftirlit, tók til að mynda á sig skýrari mynd þegar ráðnir voru sérstakir starfsmenn til að sinna því og farið var í fyrstu eftirlitsheimsóknirnar. Annars vegar á þrjár lokaðar deildir geðsviðs Landspítalans á Kleppi og hins vegar á neyðarvistunina á meðferðarstöðinni Stuðlum sem starfar á vegum Barnaverndarstofu.

Kvartanir og afgreiðsla mála

Á árinu voru 386 mál stofnuð hjá umboðsmanni, þar af var 381 kvörtun, þrjú frumkvæðismál og tvö OPCAT-mál. Þá var 406 málum lokið, þar af þremur frumkvæðismálum. Um áramótin voru 74 mál til meðferðar sem er fjórðungi færri en ári fyrr. Í 31 þeirra var beðið svara frá stjórnvöldum og í tíu umsagna þeirra sem kvörtuðu.

Eins og undanfarin ár er lögð áhersla á að ljúka málum eins fljótt og kostur er. Það hefur almennt gengið vel svo lengi sem svör berast frá stjórnvöldum innan tímamarka.  Sex af hverjum tíu málum var lokið innan mánaðar frá því að kvörtun barst og níu af tíu innan fjögurra mánaða. Í skýrslunni getur að líta ítarlega tölfræði bæði fyrir árið 2018 sem og stutta samantekt á helstu tölum frá því að umboðsmaður tók til starfa 1988.

 

 

Skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2018