Megintilgangur siðareglna er að vera leiðbeinandi um tiltekna háttsemi í starfi og brot ríkisstarfsmanns á slíkum reglum hefur því almennt ekki önnur áhrif, ef lög mæla ekki fyrir um annað, en að vera leiðbeinandi fyrir þá sem falla undir viðkomandi reglur.
Á þetta reyndi meðal annars í máli þar sem starfsmanni Landbúnaðarháskóla Íslands var veitt áminning af hálfu skólans sem byggð var á niðurstöðu siðanefndar skólans um að hann hefði brotið siðareglur skólans með ummælum í tölvupósti til samstarfsfólks.
Í áliti sínu benti umboðsmaður á að í lögum um opinbera starfsmenn sé mælt fyrir um á hverju áminning ríkisstarfsmanns kunni að byggja. Siðareglur væru fyrst og fremst leiðbeinandi fyrir starfsmenn nema lög kvæðu á um annað. Í þessu tilfelli væri engin heimild í lögum fyrir landbúnaðarháskólann til að ákveða að brot starfsmanns á siðareglum varðaði áminningu eða uppsögn, eins og siðareglur skólans gerðu ráð fyrir. Auk þess væri ekki ljóst hvort reglurnar hefðu tekið gildi þegar atvik málsins áttu sér stað. Í þessu tilviki yrði áminningin aðeins reist á heimild í lögum þar sem sú háttsemi sem til greina kom að áminna viðkomandi fyrir væri tjáning sem nyti verndar tjáningarfrelsis.
Niðurstaða umboðsmanns var að ekki hefði verið heimilt að lögum að veita áminninguna vegna niðurstöðu siðanefndar um að siðareglur hefðu verið brotnar, án þess að þáverandi forstöðumaður hefði byggt á sjálfstæðu mati á því hvort ummælin hefðu lögum samkvæmt verið andstæð starfsskyldum viðkomandi. Við það mat hefði jafnframt þurft að taka tillit til þess að með áminningunni hefði tjáningarfrelsi akademísks starfsmanns verið takmarkað. Skólinn hefði ekki sýnt fram á að ummælin hefðu verið metin með tilliti til þess hvers eðlis réttindin væru eða að ummælin hefðu verið þess eðlis að heimilt hefði verið að áminna fyrir þau. Af þessum sökum taldi umboðsmaður að áminningin hefði ekki verið í samræmi við lög. Í málinu reyndi jafnframt á önnur atriði í tengslum við flutning á starfi viðkomandi starfsmanns og aðkomu mennta- og menningarmálaráðuneytisins að málinu.
Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til landbúnaðarháskólans að leita leiða til að rétta hlut viðkomandi. Að öðru leyti yrði það að vera verkefni dómstóla, ef hlutaðeigandi kysi að fara þá leið, að meta réttaráhrif þeirra annmarka á meðferð stjórnvalda á málinu sem lýst væri í álitinu. Jafnframt mæltist umboðsmaður til þess að landbúnaðarháskólinn og mennta- og menningarmálaráðuneytið tæku framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.
Álit umboðsmanns í máli nr. 9622/2018