01. október 2019

Ábending um lagareglu vegna hækkunar á bótum almannatrygginga

Umboðsmaður hefur bent stjórnvöldum á að huga þurfi betur að því hvaða tilgangi ákvæði í lögum um almannatryggingar, er varðar viðmið um launaþróun, sé ætlað að þjóna og hvort gera megi það skýrara. Jafnframt að það væri í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að ítarlegri skýringar væru í fjárlagafrumvarpi á forsendum breytinga á bótum.

Þetta kemur fram í bréfi sem umboðsmaður hefur sent þeim ráðherrum sem fara með framkvæmd laga um almannatryggingar og fjárlaga auk velferðarnefndar Alþingis, í kjölfar kvörtunar frá Öryrkjabandalagi Íslands. Laut hún að ákvörðunum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um hvernig launaþróun er metin við gerð tillögu til fjárlaga um breytingar á fjárhæðum bóta. Gerði bandalagið m.a. athugasemdir við að almennt sé svokallað launaskrið dregið frá launavísitölu við útreikning og forsendur hlutfallshækkunar bóta almannatrygginga.

Samkvæmt lagaákvæðinu sem um ræðir skulu bætur almannatrygginga breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Af forsögu ákvæðisins má ráða að þegar talað er um að hækkun bóta skuli taka mið af launaþróun hafi ekki verið ætlun löggjafans að festa hækkanir við tiltekna vísitölu, líkt og launavísitölu. Því hafi ráðherra tiltekið svigrúm til að meta og taka mið af ólíkum aðstæðum þegar reyni á launaþróun. Ekki verði annað séð en tillögur um hækkun bóta í fjárlagafrumvörpum 2018 og 2019 hafi í báðum tilvikum gert ráð fyrir meiri hækkun en spáð hafi verið samkvæmt vísitölu neysluverðs og því ekki verið í bága við lagaákvæðið.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu taldi umboðsmaður ástæðu til að vekja athygli viðeigandi stjórnvalda á þeim álitaefnum sem Öryrkjabandalagið benti á í kvörtun sinni og tekin voru til athugunar. Benti hann þeim á að taka afstöðu til þess hvort búa megi því fjárlagaverkefni, sem leiði af umræddu lagaákvæði um launaþróun, skýrari lagagrundvöll. Almennt sé litið svo á að þegar reyni á stjórnarskrárbundin réttindi borgaranna, t.a.m. til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku eða elli, verði að gera ríkari kröfur en að jafnaði um útfærslu löggjafans á þeim réttindum.

Þá kynni að fara betur á að gera frekari grein fyrir því í frumvarpi til fjárlaga ef hækkun bóta taki t.d. ekki mið af nafnlaunahækkunum sem notaðar séu annars staðar í frumvarpinu. Ítarlegri skýringar væru í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Í bréfi umboðsmanns segir að framsetning og skýringar á tillögu um breytingar á greiðslum bóta geti haft verulega þýðingu fyrir þá sem styðjist við þessar greiðslur. Mikilvægt sé fyrir hlutaðeigandi  að geta áttað sig á hvernig þeim mælikvörðum, sem nota beri við fjárlagagerð, hafi verið beitt svo þeir geti eftir atvikum komið athugasemdum sínum á framfæri við Alþingi. Slíkt væri liður í því starfi stjórnvalda að auðvelda borgurunum, á grundvelli betri upplýsinga, að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni og um málefni sem Alþingi fjalli um.

Bréf umboðsmanns til ráðherra og velferðarnefndar Alþingis