23. október 2019

Tryggvi Gunnarsson endurkjörinn umboðsmaður

Tryggvi Gunnarsson hefur verið endurkjörinn umboðsmaður Alþingis til næstu fjögurra ára.

Samkvæmt lögum skal Alþingi kjósa umboðsmann til fjögurra ára í senn. Tryggvi hefur sinnt starfi umboðsmanns Alþingis frá 1. nóvember 1998. Fyrst sem settur umboðsmaður frá þeim tíma til 31. desember 1999 eftir að Gaukur Jörundsson sem valinn var umboðsmaður þegar embættið tók til starfa 1988 hafði verið kjörinn til setu í Mannréttindadómstól Evrópu. Tryggvi hefur síðan verið kjörinn umboðsmaður frá 1. janúar 2000 og var því í gær kjörinn í sjötta sinn til að gegna starfinu. Kjörtímabil hans nú er frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2023.