02. janúar 2020

Staða bótaþega almannatrygginga þegar skort hefur á leiðbeiningar

Á stjórnvöldum hvílir sú skylda að veita þeim sem til þess leitar nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess á grundvelli lögfestra og óskráðra reglna stjórnsýsluréttarins. Þá kann einnig að vera kveðið á um sérstakar leiðbeiningarreglur í sérlögum, eins og á t.a.m. við í almannatryggingalöggjöfinni þar sem kveðið er á um sérstaka leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar. Af þeirri reglu leiðir að ríkari leiðbeiningarskylda hvílir á starfsmönnum Tryggingastofnunar en leiða má af almennum reglum.

Í máli sem umboðsmaður lauk nýverið, og varðaði rétt einstaklings til greiðslu barnalífeyris aftur í tímann, reyndi m.a. á hvort og þá hvaða úrræði væru bótaþegum almannatrygginga tiltæk innan stjórnsýslunnar teldu þeir að skort hefði á leiðbeiningar og upplýsingar af hálfu Tryggingastofnunar sem hefði leitt til þess að þeir sóttu ekki um bætur sem þeir ella hefðu átt rétt á.

Í því máli sem hér um ræðir hafði Tryggingastofnun ákvarðað að umsækjandi um barnalífeyri ætti aðeins rétt á honum tvö ár aftur í tímann, frá því að umsókn þess efnis barst í byrjun árs 2017, en ekki aftur til ársins 2007 þegar barnið fæddist. Niðurstaða stofnunarinnar byggðist á því að ekki væri lagaheimild til að ákvarða greiðslu bóta lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn barst. Úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti ákvörðunina á þessum forsendum en gat þess þó í úrskurði sínum að skort hefði á leiðbeiningar af hálfu Tryggingastofnunar. Ráðuneytið tók undir það þegar umboðsmaður óskaði eftir afstöðu þess vegna málsins.

Umboðsmaður taldi ekki forsendur til að gera athugasemd við þá niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar hvað snerti tveggja ára fyrningartíma bótagreiðslna sem mælt er fyrir um í lögum. Aftur á móti væri tilefni til að kanna hvort og þá hvaða leiðir fólki í sambærilegri stöðu væru færar til að fá réttan hlut sinn ef það teldi að skort hefði á leiðbeiningar og upplýsingar af hálfu Tryggingastofnunar. Í slíkum tilvikum væri álitamálið hvort stofnunin hefði fullnægt leiðbeiningaskyldu sinni og ef svo væri ekki, hvort það væri orsök þess að viðkomandi hefði orðið fyrir tjóni sem fælist í missi bóta lengra aftur í tímann en tvö ár. Í þessu sambandi benti umboðsmaður m.a. á að það geti verið almennum borgurum þungt í skauti að leita til dómstóla við slíkar aðstæður, m.a. vegna kostnaðar við málarekstur.

Umboðsmaður taldi ekki annað séð af gögnum málsins en að Tryggingastofnun hefði, a.m.k. frá árinu 2008 þegar sótt var um umönnunargreiðslur og meðlag, átt að hafa nauðsynlegar upplýsingar um mögulegan rétt til barnalífeyris. Þar með hafi hvílt skylda á stofnuninni til að leiðbeina viðkomandi, að eigin frumkvæði, um þann rétt til barnalífeyris og að sækja þyrfti um hann sérstaklega. Meðferð málsins hjá stofnuninni hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við lög. Mæltist hann til þess að stofnunin tæki þennan þátt málsins til athugunar og legði hann í nauðsynlegan farveg til að rétta hlut viðkomandi til samræmis við afstöðu bæði úrskurðarnefndar velferðarmála og ráðuneytisins um að tilefni hefði verið til leiðbeininga.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til félags- og barnamálaráðherra að gildandi lög yrðu endurskoðuð þannig að þeir einstaklingar sem væru í sambærilegri stöðu og hér var uppi gætu fengið skorið úr slíkum ágreiningi hjá stjórnvöldum og leiðréttingu. Þeim tilmælum var jafnframt beint til félagsmálaráðuneytisins í ljósi yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda þess að regluleg yfirferð úrskurða frá nefndinni yrði hluti af verklagi þess.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 9790/2018