Ákveðnar starfsstéttir hafa fengið útgefin sérstök starfsréttindi t.d. eftir að hafa lokið ákveðnu námi. Almennt er gengið út frá því að slík réttindi eigi að heimila viðkomandi að sinna starfi í samræmi við réttindin. Í ýmsum tilvikum kann þó að reyna á að sérstakar reglur gildi t.d. um öryggi á þeim vinnustað þar sem viðkomandi þarf að sinna starfi sínu ef hann vill nýta starfsréttindin. Þá getur reynt á hvort fullnægjandi lagaheimild standi til að grípa inn í möguleika þess sem fengið hefur réttindin til að sinna starfinu.
Á þetta reyndi í máli þar sem íþróttakennari, sem m.a. kennir sund, kvartaði til umboðsmanns yfir viðbótarkröfum sem gerðar eru í reglugerð til menntunar sundkennara vegna öryggis þeirra sem sækja sund- og baðstaði.
Samkvæmt lögum hafa bæði umhverfis- og auðlindaráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið heimild til að setja stjórnvaldsfyrirmæli um öryggi á sund- og baðstöðum. Fyrrnefnda ráðuneytið setti reglugerð um hollustuvernd á sund- og baðstöðum þar sem gerðar voru tilteknar kröfur til hæfni og endurmenntunar sundkennara. Umboðsmaður benti á að þær kröfur sem deilt var um í málinu fælu í reynd í sér viðbótarkröfur til þess að menntaður kennari gæti nýtt réttindi sín til sundkennslu í skólum. Ekki væri dregið í efa að það væri tilefni til að gæta að öryggi á sund- og baðstöðum en ef ætti að setja ákvæði í reglugerð sem gripu inn í viðurkennd starfsréttindi sundkennara þyrftu þær að uppfylla kröfur um lagaheimild og skýrleika hennar. Að áliti umboðsmanns hafði umhverfis- og auðlindaráðherra ekki fullnægjandi lagaheimild til að setja slík ákvæði í reglugerð.
Umboðsmaður mæltist til þess að umhverfis- og auðlindaráðuneytið tæki ákvæði reglugerðarinnar til endurskoðunar og þá með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu. Þá beindi hann því til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að tryggja að þær reglur sem þau hefðu heimild til að setja um öryggiskröfur innan íþróttamannvirkja, þ.m.t. á sundstöðum, væru settar af þar til bærum aðila og efni þeirra hefði fullnægjandi lagastoð. Jafnframt mæltist umboðsmaður til þess að ráðuneytin tækju framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.
Álit umboðsmanns í máli nr. 10051/2018